Upp úr sauð í Njarðvík og Keflavík tapaði á Nesinu
Uppúr sauð á Rafholtsvelli í gærkvöldi þegar Njarðvíkingar fengu Fjölni í heimsókn í Inkassodeildinni í knattspyrnu. Heimamenn voru 1:0 yfir þegar 5 mínútur voru komnar yfir venjulegan leiktíma en þá jöfnuðu gestirnir með vafasömu marki. Í sömu umferð tapaði Keflavík gegn Gróttu á Seltjarnarnesi.
Í aðdraganda marksins í Njarðvík virtist brotið á Brynjari Atla markverði UMFN og Rafn Markús Vilbergsson, þjálfari liðsins sagði að menn hefðu verið mjög ósáttir með frammistöðu dómara og aðstoðardómara í þessu tilviki.
„Við erum bara einfaldlega virkilega fúlir og brjálaðir yfir síðustu sókn leiksins, þetta var bara algjörlega út úr korti, það kemur sending þarna fyrir og markvörðurinn okkar er rifinn niður og ekkert dæmt. Þarna eiga bæði aðstoðardómarar og dómari að sjá þetta greinilega, sérstaklega aðstoðardómarinn," sagði Rafn í viðtali við fotbolti.net en sjá má viðtalið í heild í fréttinni.
Andri Fannar Freysson skoraði fyrsta mark leiksins og kom heimamönnum yfir með marki úr víti. Njarðvíkingar léku vel allan leikinn og sýndu toppliði deildarinnar enga miskun. Það var því sárt þegar þeir fengu jöfnunarmark í andlitið þegar langt var komið fram yfir venjulegan leiktíma.
Andri Fannar og Ari Már Andrésson voru mjög ósáttir við dómgæsluna í lokin eða það sem uppá vantaði í henni og létu ófögur orð falla. Þeir fengu báðir rautt spjald eftir að leiktíma lauk.
Njarðvíkingar eru í vondri stöðu í deildinni, í fallsæti með Magna, bæði lið með 10 stig, fjórum á eftir Haukum.
Tap á Nesinu
Keflvíkingar léku einnig í gærkvöldi í deildinni og mættu Gróttu á Seltjarnarnesi. Úr varð hörkuleikur sem endaði með 4:3 sigri Gróttu í markaleik. Eins og í Njarðvík kom lokamarkið í uppbótartíma en það var sigurmark Gróttu. Frans Elvarsson, Davíð Snær Jóhannsson og Adam Ægir Pálsson skoruðu mörk Keflvíkinga sem eru í 7. sæti með 22 stig.
Andri Fannar Freysson skoraði úr víti en fékk svo rautt spjald í leikslok. VF-myndir/Sólborg.