Unninn leikur í vaskinn hjá Keflavík
Keflvíkingar urðu af tveimur dýrmætum stigum þegar Selfyssingar jöfnuðu það sem Keflvíkingar héldu vera unninn leik á Nettó-vellinum í Keflavík í kvöld. Þá lauk 9. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu. „Þetta er hrikalega svekkjandi og umhugsunarefni fyrir okkur hvernig við erum oft að slaka á í seinni hálfleik,“ sagði Haraldur Freyr Guðmundsson, fyrirliði Keflavíkur eftir leikinn.
Jóhann Birnir Guðmundsson kom heimamönnum í Keflavík yfir í leiknum á 38. mínútu með laglegu skoti eftir sendingu frá Frans Elvarssyni. Staðan í hálfleik var 1-0 og heimamenn miklu betri og með fleiri færi. Það voru svo rétt liðnar tvær mínútur af síðari hálfleik þegar heimamenn bættu við marki. Þá skoraði Arnór Ingvi Traustason fyrir Keflavík eftir flotta sókn.
Keflvíkingar slökuðu helst til of mikið á eftir seinna mark sitt og létu sem þeir væru með unninn leik í höndunum. Það nýttu gestirnir sér og hertu sóknina. Þeir minnkuðu muninn á 85. mínútu með marki Babacar Sarr og fimm mínútum síðar, á lokamínútu venjulegs leiktíma jöfnuðu Selfyssingar leikinn með marki Jóns Daða Böðvarssonar.
Heimamenn máttu svo þakka fyrir að gestirnir gerðu ekki út um leikinn en Selfyssingar voru mun skæðari á lokamínútum leiksins. Segja má að unninn leikur hafi farið í vaskinn hjá Keflavík og þrjú stig urðu að einu á fimm mínútna lokakafla í leiknum.
Keflavík 2-2 Selfoss (1-0)
1-0 Jóhann Birnir Guðmundsson 38. mín.
2-0 Arnór Ingvi Traustason 57. mín.
2-1 Babacar Sarr 85. mín.
2-2 Jón Daði Böðvarsson 90. mín.
Ítarlega videoviðtalvið Harald Frey er væntanlegt á vf.is.
Efst má sjá boltann í netinu eftir fyrra mark Selfyssinga. Á neðri myndinni er Guðmundur Steinarsson í baráttu í teig Selfyssinga. Hann fékk gott færi í stöðunni 2:0 og munaði litlu að hann kæmi Keflavík í 3:0. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson