UNGLINGAÞOLFIMI OG KRIPALU JÓGA
Studeó Huldu hefur ráðið til sín nýja leiðbeinendur og mun í kjölfarið auka við fjölbreytni þeirrar þjónustu sem í boði er. Hilma Sigurðardóttir, fimleikadrottning sem varð í 2. sæti í Íslandsmótinu í þolfimi í ár, mun kenna unglingaþolfimi fyrir pilta og stúlkur frá 12-16 ára „Þetta verður góð líkamsrækt þar sem líkaminn er þjálfaður frá toppi til táar og það er gaman að koma með nýjar íþróttir í boltabæinn, hrista upp í einfaldleikanum“ sagði Hilma. Matthildur Gunnarsdóttir, jógakennari, mun bjóða viðskiptavinum upp á Kripalu- og Ashtanga jóga. Matthildur lauk kennararéttindanámi frá Kripalu Center í Lennox, MA, í Bandaríkjunum 1993 og lærði Ashtanga jóga, oftast nefnt Power jóga, hjá David Svenson, þekktum bandarískum jógakennara, sem m.a. birtist íslenskum sjónvarpsáhorfendum fyrir nokkrum árum og gefið hefur út fjölda kennslumyndbanda. Þá mun Afríkumaðurinn Akeem kenna Afro-Kickbox, blöndu af afrískum dansi og Kickbox æfingum þar sem lögð er áhersla á einbeitta hreyfingu.