„Unglingalið“ UMFN vann Keflavík í Ljónagryfjunni
Njarðvíkingar lögðu granna sína úr Keflavík í Lengjubikarnum með þrettán stiga mun í jöfnum leik í Ljónagryfjunni í Njarðvík í kvöld. Lokatölur urðu 90-77 en staðan í hálfleik var 47-42 fyrir heimamenn.
„Það er spurning hvaða útlending Keflvíkingar senda heim eftir þessa útreið hjá unglingaliðinu okkar,“ sagði einn fyrrverandi leikmaður Njarðvíkur eftir þennan sæta sigur. Lokatölurnar segja ekki allt um leikinn sem var jafn allan tímann en heimamenn voru þó alltaf með forystu þó hún væri naum. Aðeins munaði 3 stigum á liðunum eftir fyrsta fjórðung, tveimur í hálfleik og fjórum þegar þremur leikhlutum var lokið, 64-60. Það var síðan í upphafi þess fjórða sem þeir grænklæddu juku forskotið sem fór mest í tólf stig og þann mun náðu Keflvíkingarnir ekki að brúa.
Þó svo útlendingarnir tveir hjá Njarðvík skoruðu nákvæmlega helming stiga liðsins þá er skemmtilegt að fylgjast með hinu unga Njarðvíkurliði. Þar eru mjög ungir leikmenn í lykilhlutverkum og spila mikið. Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur gaf sínum ungu peyjum tækifæri í leiknum en það er ljóst að þeir ungu í Njarðvík hafa öðlast mikið sjálfstraust í haust og virka þannig öruggari en félagar þeirra úr Keflavík. Á heildina litið léku heimamenn betur í þessum leik og uppskáru sanngjarnan sigur. Þess ber þó að geta að Magnús Gunnarsson er ekki heill heilsu og Arnar Freyr Jónsson er líka meiddur og var ekki í leikmannahópi Keflavíkur í kvöld.
Stigahæstir:
Njarðvík: Travis Holmes 23 (16 fráköst), Cameron Echols 22 (12 fráköst), Ólafur Helgi Jónsson 9, Elvar Friðriksson og Hjörtur Einarsson 9 hvor.
Keflavík: Steven Gerard 19, Magnús Gunnarsson 17, C Parker 16, Jo Cole 11, Valur Valsson 8.
VF-ljósmyndir Páll Orri Pálsson. Texti Páll Ketils.
VefTV viðtöl við Elvar Frey (á mynd hér að neðan) og Val Valsson koma á vf.is á þriðjudagsmorgun.
Ragnar Gerald Albertsson er einn af ungu leikmönnum Keflavíkur.
Útlendingarnir voru atkvæðamiklir í báðum liðum í kvöld.
Ólafur Helgi Jónsson reynir körfuskot í leiknum í kvöld.