Ungar stúlkur skipulögðu æfingabúðir

-Stærsta æfingahelgi í blönduðum bardagaíþróttum sem haldin hefur verið hér á landi

Þær Jana Lind Ellertsdóttir og Heiðrún Fjóla Pálsdóttir skipulögðu æfingabúðir í blönduðum bardagaíþróttum sem fóru fram síðustu helgi. Jana og Heiðrún keppa báðar í Júdó fyrir Njarðvík.

Margir af bestu þjálfurum og keppnismönnum úr hinum ýmsu greinum tóku þátt í búðunum og margir hverjir frá Suðurnesjum. Má þar m.a. nefna Helga Rafn þjálfara Keflavíkur sem kenndi Taekwondo, Guðmund Stefán Gunnarsson þjálfara UMFN sem kenndi Júdó og Blackhold. Þá kenndi Sigurpáll, fyrrverandi þjálfari Newasa BJJ í Grindavík, BJJ/Grappling ásamt fleiri þjálförum annars staðar af landinu sem kenndu hinar ýmsu greinar.

Svona viðburði er ekki hægt að halda nema með miklum stuðningi og að þessu sinni voru það Glímusamband Íslands, Sportvörur, Bætiefnabúllan, Sonatural, Fontana Spa, ChiaGo, Hreysti og síðast en ekki síst Reykjanesapótek sem gerðu þessar æfingabúðir að veruleika. Helgin var frábær í alla staði og var aðstaðan til fyrirmyndar.