Undanúrslitin hefjast í kvöld
KR-ingar taka á móti Njarðvík í Vesturbænum
Eftir stutt páskafrí yfir helgina reima Njarðvíkingar aftur á sig skónna í kvöld þegar liðið sækir KR heim í DHL höllina í fyrsta leik liðanna í undanúrslitaeinvígi liðanna í Domino´s deild karla í körfubolta.
Njarðvíkingar fóru alla leið í 5. leik í rimmu sinni gegn Stjörnunni á meðan KR sendi Þór frá Þorlákshöfn í sumarfrí með sópnum góða í þremur leikjum. Njarðvíkingar léku síðasta leik sinn á Skírdag og hafa því ekki hvílst jafnlengi og lið deildarmeistara KR.
Vörn Njarðvíkinga hefur verið þeirra aðalsmerki í úrslitakeppnini og t.a.m. héldu þeir Stjörnunni í 70 stigum í síðasta leik sem að var gestunum um megn. Mikill stígandi hefur verið í leik Njarðvíkinga frá áramótum og ljóst að liðið er að rísa upp á hárrétum tíma. Það er þó alveg ljóst að lið KR-ingar verða engin lömb að leika sér við en liðið er hlaðið frábærum leikmönnum og nærvera Michael Craion í teignum er eflaust farin að valda þjálfurum Njarðvíkur, þeim Friðriki Inga Rúnarssyni og Teiti Örlygssyni, talsverðum hausverk nú þegar. Sömuleiðis má segja að KR-ingar muni leggja áherslu á að halda Stefan Bonneu, erlendum leikmanni Njarðvíkur, í skefjum en kappinn hefur verið hér um bil óstöðvandi síðan hann lenti á Keflavíkurflugvelli um mitt tímabil.
Njarðvíkingar eru vel studdir áfram af fjölmörgum stuðningsmönnum liðsins sem hafa látið mikið fyrir sér fara og þá sérstaklega á heimavelli liðsins þar sem að liðið vann alla leiki sína í 8 liða úrslitunum. Njarðvíkingar verða aftur á móti að sækja a.m.k. 1 sigur í Vesturbænum til að eiga möguleika á því að vinna sér inn sæti í lokaúrslitum Íslandsmótsins.
Leikur kvöldsins hefst á slaginu 19:15 og eru stuðningsmenn hvattir til að mæta og styðja við bakið á liðinu.