Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ummæli Willum fara ekki fyrir aganefnd
Þriðjudagur 10. maí 2011 kl. 11:08

Ummæli Willum fara ekki fyrir aganefnd

Willum Þór Þórsson, þjálfari Keflavíkur, mun ekki eiga á hættu að fara í leikbann vegna ummæla um dómarann Gunnar Jarl Jónsson sem Willum viðhafði eftir leik KR og Keflavíkur í Pepsi-deild karla á sunnudagskvöld.

Willum var langt frá því að vera sáttur við frammistöðu Gunnars í leiknum en myndbandsupptökur úr leiknum hafa sýnt að hann dæmdi ekki aukaspyrnu sem Keflvíkingar hefðu réttilega átt að fá í aðdraganda jöfnunarmarks KR undir lok leiksins.

Að auki fengu Keflvíkingar ekki vítaspyrnu er Magnús Sverrir Þorsteinsson virtist vera felldur innan vítateigs. Willum hafði því eitthvað til síns máls en jafnvel var talið að Willum hefði gegnið of langt í málflutningi sínum er hann sagði að Gunnar Jarl væri stórlega ofmetinn dómari og að hann ætti að fara í æfingabúðir.

Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ er sá eini sem getur vísað ummælum leikmanna og þjálfara fyrir aganefnd KSÍ. Hann ætlar hins vegar ekki að vísa ummælunum til nefndarinnar en segir að ummæli Willums vera ósanngjörn.

„Ég tel hann ekki hafa brotið gegn reglugerðum. Það breytir því ekki að mér finnst ummælin um þennan dómara ekki vera viðkomandi þjálfara til stækkunar. Mér finnst þau vera mjög ósanngjörn. Þau eru ekki sæmandi þjálfara eins og Willum sem mikil virðing er borin fyrir," segir Þórir í samtali við Fótbolta.net um málið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024