Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Umfjöllun: Nýliðarnir grjótharðir í Röstinni
Föstudagur 9. desember 2011 kl. 16:11

Umfjöllun: Nýliðarnir grjótharðir í Röstinni

Nýliðar Þórs úr Þorlákshöfn urðu í kvöld fyrstir til þess að hafa sigur á toppliði Grindavíkur í Iceland Express deild karla. Hvort Grindvíkingar hafi enn verið að fagna Lengjubikartitlinum skal ósagt látið en Þórsarar létu ekki hanka sig aftur á fráköstunum sem urðu þeirra banabiti gegn Grindavík um síðustu helgi. Lokatölur í Röstinni voru 76-80 Þórsurum í vil eftir æsispennandi lokasprett. Með sigrinum færðist Þór upp í 4. sæti deildarinnar með 10 stig en Girndavík er sem fyrr á toppnum með 14 stig.

Páll Axel Vilbergsson var ekki í leikmannahópi Grindavíkur í kvöld þar sem hann er enn að glíma við tognun í læri. Gulir heimamenn létu fjarveru Páls ekki aftra sér í upphafi leiks og breyttu stöðunni snemma í 12-3. Þórsarar mættu með svæðisvörn í Röstina sem gekk þokkalega en heimamenn leiddu 16-10 að loknum fyrsta leikhluta þar sem J´Nathan Bullock var kominn með 7 stig og tvær villur.

Bullock splæsti í þrist og kom Grindavík í 19-12 en þessi krafthúsaleikmaður er með mjúka stroku og varnarmönnum í úrvalsdeildinni þungur ljár í þúfu. Gestirnir tóku þá 2-9 sprett og jöfnuðu metin í 21-21 en leikhlutinn og leikurinn í raun allur einkenndist af varnarleik og mislögðum höndum í sóknarleiknum. Heimamenn leiddu 34-33 í leikhléi aðeins fyrir klaufagang gestanna sem misnotuðu sniðskot um leið og hálfleiksflautan lét í sér heyra.

Ólafur Ólafsson kom Grindavík í 38-33 í upphafi síðari hálfleiks með troðslu að hætti hússins og stemmningin virtist vera að falla Grindvíkingum á band en grjótharðir gestirnir þverneituðu að láta stinga sig af. Fyrir leikinn í kvöld hafði Jóhann Árni Ólafsson aðeins skorað úr einum þrist í 14 tilraunum í deildinni en honum brást ekki bogalistin þegar hann kom Grindavík í 49-42. Grindavík kláraði svo leikhlutann 56-49 og ef til vill hefði munurinn verið minni ef Mike Ringgold hefði áhuga á því að laga hjá sér vítanýtinguna, 3 af 11 í kvöld og fyrir leikinn hafði hann aðeins sett niður 33% víta sinna í deildinni.

Framan af fjórða leikhluta höfðu Grindvíkingar frumkvæðið en hægt og bítandi nálgaðist Þór og fór Baldur Þór Ragnarsson þar fremstur í flokki með magnaðri baráttu og grimmum varnarleik. Ómar Örn Sævarsson fékk dæmt á sig tæknivíti þegar um fimm mínútur voru til leiksloka og gestirnir þökkuðu pent fyrir sig og jöfnuðu leikinn 60-60. Upp hófst skemmtilegur lokasprettur þar sem téður Baldur kom Þór í 62-65 með þriggja stiga körfu.

Þegar mínúta var til leiksloka var dæmd óíþróttamannsleg villa á Þórsara fyrir brot á Grindvíkingum í hraðaupphlaupi. Hér var staðan 66-73 fyrir Þór og allt stefndi í öruggan sigur gestanna en Grindvíkingar settu bæði vítin og Jóhann Árni Ólafsson mætti með þrist strax eftir innkastið og staðan orðin 71-73. Grindvíkingum tókst ekki að loka vörninni, Þór jók muninn í 71-75 í næstu sókn og þegar 23 sekúndur voru eftir setti Baldur Þór niður tvö víti fyrir Þór og staðan 71-77 og björninn þar með unninn. Lokatölur reyndust svo 76-80 Þór í vil og fyrsta tap Grindavíkur þetta tímabilið kom því á heimavelli.

Stigaskor:

Grindavík: J'Nathan Bullock 21/7 fráköst, Ólafur Ólafsson 17/4 fráköst/6 stolnir, Giordan Watson 13/4 fráköst/7 stoðsendingar, Jóhann Árni Ólafsson 9, Þorleifur Ólafsson 7/4 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 5/8 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 4/4 fráköst, Jón Axel Guðmundsson 0, Ármann Vilbergsson 0, Björn Steinar Brynjólfsson 0, Þorsteinn Finnbogason 0, Einar Ómar Eyjólfsson 0.

Þór Þorlákshöfn: Michael Ringgold 23/8 fráköst, Darrin Govens 22/8 fráköst, Guðmundur Jónsson 10, Marko Latinovic 9/11 fráköst, Baldur Þór Ragnarsson 8, Darri Hilmarsson 5/8 fráköst, Þorsteinn Már Ragnarsson 3, Emil Karel Einarsson 0, Erlendur Ágúst Stefánsson 0, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 0.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Georg Andersen

umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson – nonni@karfan.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024