Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Umfjöllun: Keflavík vann annan spennuslag gegn Snæfell
Laugardagur 3. desember 2011 kl. 10:58

Umfjöllun: Keflavík vann annan spennuslag gegn Snæfell

Það verða Keflavík og Grindavík sem leika munu til úrslita í Lengjubikar karla þetta árið en Keflavík lagði Snæfell að velli í síðari undanúrslitaleik gærkvöldsins í DHL-Höllinni. Lokaspretturinn var æsispennandi en Keflvíkingar sem höfðu frumkvæðið í leiknum héldu út og unnu sinn annan spennusigur í röð á Snæfellingum, lokatölur að þessu sinni 88-93. Jarryd Cole fór mikinn í liði Keflavíkur með 36 stig og 10 fráköst en Marquis Hall var með 25 stig í liði Snæfells. Úrslitaviðureign Grindavíkur og Keflavíkur hefst svo kl. 16:00 í DHL-Höllinni á morgun.


Keflvíkingar mættu með sex fyrstu stig leiksins og komust síðar í 5-12 þar sem Jarryd Cole gerði 10 stig og liðsfélagar Quincy Hankins-Cole voru orðnir þreyttir á því að grátbiðja sinn mann um að sína smá lit í vörninni. Ingi Þór Steinþórsson tók við þetta leikhlé fyrir Hólmara og smellti Quincy á bekkinn og þá hresstust hans menn nokkuð. Sveinn Arnar Davíðsson átti fína spretti hjá Snæfell sem snöggtum minnkaði muninn í 17-19. Quincy kom inn á völlinn að nýju undir lok leikhlutans og afrekaði það að setja niður síðustu stig hans og koma Snæfell í 25-23 og þannig stóðu leikar að leikhlutanum loknum.

Ekki átti að fara mikið fyrir varnarleiknum í öðrum leikhluta, Keflvíkingar höfðu frumkvæðið en Snæfell var aldrei langt undan. Valur Orri Valsson kom með fimm stig í röð hjá Keflavík og á sama tíma virtist Ingi Þór þjálfari Snæfells vera eini Hólmarinn með metnað til að vinna leikinn en hans liðsmenn voru fremur bragðdaufir í upphafi annars leikhluta.

Quincy Hankins-Cole jafnaði metin í tvígang fyrir Snæfell, 42-42 og svo aftur 44-44. Þegar leið á annan leikhluta mætti Steven Gerard með góðar rispur og munurinn komst upp í átta stig í leikhléi eftir byrjendamistök Snæfellinga, hentu fyrst boltanum upp í hendur Keflvíkinga í innkasti, Gunnar Hafsteinn Stefánsson mætti þá með þrist og þegar Hólmarar héldu í lokasókn fyrri hálfleiks misstu þeir boltann, Charles Parker brunaði þá upp og tróð með látum og Keflavík leiddi 51-59 í hálfleik.

Jarryd Cole var með 20 stig og Steven Gerard 15 hjá Keflavík en þeir Quincy Hankins-Cole og Marquis Hall voru báðir með 14 stig í liði Snæfells.

Keflavík kom muninum upp í tíu stig snemma í síðari hálfleik, Hólmarar virtust þá lítinn áhuga á því að spila vörn en hægt og bítandi fór varnarleikurinn að þéttast hjá báðum liðum og ekki seinna vænna eftir 110 stiga fyrri hálfleik.


Almar Guðbrandsson laumaði inn fínum rispum hjá Keflavík og Jarryd Cole fékk að leika sér nokkuð frjálslega, Hankins-Cole ekki mikið fyrir varnarleikinn í kvöld. Aukin harka færðist þó í leikinn í síðari hálfleik með bættum varnarleik en Keflavík leiddi 68-74 að loknum þriðja leikhluta.

Tvær mínútur liðu stigalausar í fjórða leikhluta áður en Jarryd Cole rauf þögnina. Hólmarar fóru þó að lemja sig nærri og minnkuðu muninn í 77-78 eftir þrista frá Hafþóri og Marquis en Keflvíkingar voru engu að síður alltaf með frumkvæðið.

Charles Parker tók lítinn þátt í síðari hálfleik í liði Keflavíkur en Jarryd Cole, Valur Orri Valsson og Steven Gerard voru Snæfell illir viðureignar. Gerard jafnaði metin í 83-83 með þriggja stiga körfu þegar læti voru komin í herbúðir Snæfells og upphófst spennandi lokasprettur.

Jarryd Cole kom Keflavík í 85-87 og síðar í 86-89 þegar 27 sekúndur voru eftir. Almar Guðbrandsson braut svo á Jóni Ólafi Jónssyni sem á vítalínunni minnkaði muninn í 88-89. Snæfell braut strax á Keflavík í næstu sókn og sendu Gerard á línuna og öryggið uppmálað kom hann Keflvíkingumí 88-91. Í næstu sókn Hólmara ver Halldór Örn Halldórsson skot frá Marquis Hall, Gerard greip frákastið af varða skotinu og Hólmarar brutu strax á honum, vítin fóru sína leið og lokatölur urðu svo 88-93 Keflavík í vil.

Annar spennusigurinn í röð sem Keflvíkingar vinna á Snæfell og að þessu sinni var Jarryd Cole atkvæðamikill með 36 stig og 10 fráköst. Steven Gerard bætti við 26 stigum og 8 stoðsendingum og Charles Parker var með 12 stig. Hjá Snæfell var Marquis Hall með 25 stig og Quincy Hankins-Cole bætti við 22 stigum og 11 fráköstum og þá var Jón Ólafur Jónsson með 18 stig og 7 fráköst.

Magnús Þór Gunnarsson tók út leikbann í liði Keflavíkur í kvöld og verður því löglegur með liðinu í úrslitaleiknum í dag gegn Grindavík. Þá var Arnar Freyr Jónsson á bekknum í borgaralegum klæðum og því tvær kanónur sem Keflvíkingar eiga enn uppi í erminni.

umfjöllun og mynd, Karfan.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024