Umfjöllun: Grindavík spilaði einn sinn versta leik í langan tíma
Grindvíkingar spiluðu sennilega sinn versta leik á tímabilinu gegn Stjörnunni í gærkvöld í undanúrslitum Iceland Express-deildar karla. Eins og gefur að skilja varð niðurstaðan tap hjá Grindvíkingum en lokatölur urðu 65-82 og Stjörnumenn eru því búnir að minnka muninn í einvíginu í 2-1.
Mikill hugur var í Grindvíkingum allt frá upphafi og stuðningsmennirnir voru með á nótunum. Þegar 1. leikhluti var hálfnaður var staðan 9-9. Stjörnumenn komu svo á blússandi siglingu og þeir höfðu forystu þegar 1. leikhluta lauk en troðsla frá Keith Cothran jók muninn í 17-21 og leikurinn líflegur og ágætis harka sem dómarar voru að leyfa. Dómarar leiksins virtust þó leyfa Stjörnunni ívið meiri hörku en Grindvíkingum. Ólafur Ólafsson undarlega ásetningsvillu dæmda á sig fyrir að því virtist litlar sakir en dómararnir áttu eftir að reynast Grindvíkingum örlítið erfiðir í leiknum.
Það fór að hitna í kolunum og ljóst að þetta yrðu slagsmál eins og í alvöru leikjum í úrslitakeppni. Stjörnumenn náðu 9 stiga forystu í byrjun 2. leikhluta og Helgi Jónas þjálfari Grindvíkinga var alls ekki sáttur. Þegar 3 mínútur voru til hálfleiks þá fór forysta Stjörnunnar í 10 stig, 31-41. Grindvíkingar voru virkilega ósáttir með dómgæsluna í fyrri hálfleik eins og áður segir og voru byrjaðir að láta það hafa áhrif á leik sinn. Grindvíkingar voru með 13 villur í hálfleik og Stjarnan 8.
Stjarnan leiddi 34-46 í hálfleik og þar var fremstur meðal jafningja Justin Shouse með 11 stig en Marvin Valdimarsson og Keith Cothran voru með 8 stig hvor. Hjá heimamönnum voru Giordan Watson og Þorleifur með 7 stig á haus.
Það virtist sem Grindvíkingar væru heillum horfnir því lítið var að falla með þeim og skotval þeirra var oft á tíðum undarlegt. Sóknarleikurinn var stirður hjá þeim gulklæddu. Heimamenn í Grindavík skoruðu sín fyrstu stig í síðari hálfleik þegar 4 mínútur voru liðnar af 3. leikhluta en þá var munurinn orðinn 16 stig og Stjarnan með leikinn í hendi sér. Í næstu sókn fengu Grindvíkingar dæmda á sig tæknivillu og á skömmum tíma breyttist leikurinn í hálfgerðan barning þar sem lítið var hugsað um körfubolta, sérstaklega átti það við um heimamenn. Stjörnumenn juku á þeim tíma muninn í 19 stig. Martöð Grindvíkinga hélt áfram og enginn þeirra leikmanna virtist með lífsmarki. Munurinn hélst svo yfir 20 stig nánast fram að leikslokum og fór að lokum svo Stjarnan landaði öruggum sigri.
Stigin:
Grindavík: Þorleifur Ólafsson 16/4 fráköst/6 stolnir, J'Nathan Bullock 12/6 fráköst, Giordan Watson 9/7 stoðsendingar, Ómar Örn Sævarsson 6/5 fráköst, Páll Axel Vilbergsson 5, Ólafur Ólafsson 5, Ryan Pettinella 5/5 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 3, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 2, Björn Steinar Brynjólfsson 2, Þorsteinn Finnbogason 0, Ármann Vilbergsson 0.
Stjarnan: Jovan Zdravevski 18/5 fráköst, Justin Shouse 16/4 fráköst/6 stoðsendingar, Renato Lindmets 14/9 fráköst, Keith Cothran 14, Marvin Valdimarsson 12/11 fráköst, Sigurjón Örn Lárusson 6, Guðjón Lárusson 2, Tómas Þórður Hilmarsson 0, Aron Kárason 0, Dagur Kár Jónsson 0, Christopher Sófus Cannon 0, Magnús Bjarki Guðmundsson 0.
Bæði áhorfendur og Helgi Jónas voru ekki par sáttir við dómgæsluna í gær.
VF-Myndir: Páll Orri