Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Um 200 ungir kylfingar keppa í Leiru og í Sandgerði á opnunarmótum ársins
Laugardagur 22. maí 2010 kl. 10:19

Um 200 ungir kylfingar keppa í Leiru og í Sandgerði á opnunarmótum ársins

Leirulognið stóð undir nafni þegar fyrstu keppendurnir fóru af stað í fyrsta stigamóti unglinga á þessu ári. Fyrstu hollin hófu leik á fyrsta og tíunda teig í Leirunni í morgun en 132 eru skráðir til leiks og munu leika 36 holur á Hólmsvelli um Hvítasunnuhelgina.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gylfi Kristinsson, stjórnarmaður í GSÍ og fyrrverandi framkvæmdastjóri Golfklúbbs Suðurnesja, setti mótaröðina sem hefur fengið nýjan styrktaraðila, Arion banka. Síðan héldu fyrstu hollin af stað í Leirulogninu sem var svo mikið að Björgvin Sigurbergsson, stórkylfingur og golfkennari spurði fréttamann hvort þetta væri draumur eða hreinlega himnaríki. Hann trúði ekki veðurblíðunni. Suðurnesjamenn sem þarna voru sögðust ekki hissa á þessu. Það væri mjög oft blíða í Leirunni.

Með þessu fyrsta stigamóti GSÍ 2010 hefst formlega ný keppnistíð í íslensku golfi. Eftir mildan vetur en frekar kalt vor er sumarið nú komið. Hitatölur vel yfir 10 gráður farnar að sjást sem er gott fyrir golfvellina sem marga vantar smá hlýju og yl til að ná sumarsprettunni í gang.

Auk unglinganna í Leirunni eru um 60 ungmenni að keppa á Áskorendamóti í Sandgerði. Samhliða unglingamótaröðinni fer alltaf fram áskorendamót sem er fyrir kylfinga 14 ára og yngri. Það eru því tæplega 200 ungir kylfingar sem starta GSÍ mótaröðunum í ár og er það vel við hæfi. Þetta er jú framtíðin og það mátti sjá á höggum margra í morgun. Einhverjir þeirra eiga eftir að láta að sér kveða meðal þeirra bestu í framtíðinni.

Gylfi Kristinsson, stjórnarmaður í Golfsambandi Íslands og fyrrverandi framkvæmdastjóri Golfklúbbs Suðurnesja setti mótið í Leirunni í morgun en svo tók Sigurður yfirræsir Friðriksson við stjórnartaumnum á fyrsta teignum.

Sultublíða og algert logn var í Leirunni í morgun. Að neðan má sjá Sigurð yfirræsi, Jón Ólaf Jónsson, starfsmann GS og unga kylfinga við Pálskotið, aðsetur ræsa mótsins.