Tyson-Thomas með 53 stig í fyrsta leik
Nýliðar Njarðvíkur í Dominos deild kvenna í körfubolta sigruðu Val í sínum fyrsta leik og voru lokatölur 77-74 þar sem Carmen Tyson-Thomas átti stórleik. Í Mustad höllinni sigruðu Grindvíkingar Hauka, 78-63 og Keflavík töpuðu gegn Stjörnunni, 56-61 á heimavelli.
Bandaríkjamaðurinn Carmen Tyson-Thomas átti frábæran leik fyrir Njarðvík og skilaði 53 stigum, 18 fráköstum og 4 stolnum boltum. Skotnýting hennar var mjög góð og setti hún meðal annars 5 þriggja stiga körfur niður í 8 tilraunum. 59 framlagsstig í heildina fyrir Tyson-Thomas. Frábær byrjun fyrir þennan gríðarsterka leikmann og fyrir Njarðvíkurliðið sem spáð var neðsta sæti deildarinnar í vetur. Ína María Einarsdóttir skoraði 14 stig, var með 4 fráköst og 2 stoðsendingar og Björk Gunnarsdóttir gaf 12 stoðsendingar. í liði Vals var Mia Loyd stigahæst með 30 stig, 13 fráköst og 3 stoðsendingar.
Í leik Grindavíkur og Hauka voru Ingibjörg Jakobsdóttir og Ingunn Embla Kristínardóttir stigahæstar Grindvíkinga með 15 stig hvor. Ingibjörg var auk þess með 5 fráköst og 3 stoðsendingar. Ingunn Embla var með 4 fráköst og eina stoðsendingu til viðbótar við stigin 15 á aðeins 16 spiluðum mínútum. Íris Sverrisdóttir kom sterk inn af bekknum og skoraði 13 stig, tók 4 fráköst og gaf 2 stoðsendingar. Sterkastar hjá Haukum voru Anna Lóa Óskarsdóttir með og Sólrún Inga Gísladóttir með 14 stig hvor.
Í TM höllinni var Birna Benónýsdóttir stigahæst hjá Keflavík með 14 stig og 5 fráköst. Thelma Dís Ágústsdóttir skoraði 12 stig og tók 5 fráköst og Emelía Ósk Gunnarsdóttir skoraði 13 stig, var með 3 fráköst og 3 stolna bolta. Dominique Hudson byrjaði tímabilið ekki vel en hún náði ekki að setja neitt skot niður en skilaði þó 8 fráköstum.