Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Laugardagur 10. maí 2008 kl. 00:02

"Týndu synirnir" komnir heim

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Þeir Hörður Sveinsson og Hólmar Örn Rúnarsson skrifuðu í kvöld undir þriggja ára samning við knattspyrnudeild Keflavíkur. Þeir Hörður og Hólmar hafa undanfarin misseri leikið með danska liðinu Silkeborg sem leikur í næst-efstu deild en léku áður með Keflavík þar sem þeir eru uppaldir. Dagurinn í dag var annasamur þar sem mikið gekk á hjá liðinu við að ganga frá öllum málum fyrir opnunarleikinn gegn Íslandsmeisturum Vals á morgun, laugardag, kl. 16.15.

Leikmennirnir eiga án efa eftir að styrkja lið Keflavíkur verulega í sumar, en þeir voru burðarásar í liðinu áður en þeir héldu á vit atvinnumennskunnar á sínum tíma. Hörður var m.a. valinn besti ungi leikmaður Landsbankadeildarinnar árið 2005.

Hörður sagði í viðtali við Víkurfréttir að hann væri ánægður með að vera kominn aftur heim og hjálpa sínu gamla liði. "Ég lít alls ekki svo á að ég sé kominn á einhvern byrjunarreit því fótboltinn hér heima er mjög sterkur. Ég var líka að leika með varaliðinu úti sem var ekki það sem ég var að vonast til."

Hörður bætti því við, aðspurður, að hann hefði enn hug á að reyna sig frekar í atvinnumennskunni. "Ég er enn ungur og á nóg eftir af mínum ferli, þannig að það er hægt að skoða þessi mál ef til þess kemur, þá í samráði við Keflavík að sjálfsögðu."


Hólmar var búinn að fá mun fleiri tækifæri í aðalliði Silkeborg en Hörður en var engu að síður orðinn þreyttur á óvissunni í kringum liðið. "Ég var oft í byrjunarliðinu en næsta leik var ég kannski á bekknum eða jafnvel ekki í hópnum. Þetta var svolítið rokkandi síðasta árið, við vorum búnir að hafa 45 þjálfara á stuttum tíma og ég var orðinn svolítið þreyttur."

Hólmar segir að honum lítist mjög vel á sumarið. "Þetta verður ljúft. Keflavík spilar alltaf skemmtilegan bolta og það verður gaman að taka þátt í því og deildin verður örugglega spennandi í ár."

Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflvíkinga, var að vonum ánægður með að hafa tryggt sér starfskrafta Hólmars og Harðar. "Þetta er bara stórlkostlegt og ég verð að hrósa stjórninni fyrir kraftinn og eljuna sem þurfti til að ná í þessa stráka. Þeir lyfta liðinu og félaginu öllu á annað plan að öllu leyti, bæði á vellinum og utan hans. Svo eru þeir heimamenn og það er líka einn stærsti ávinningurinn af því að fá menn á þessum tíma að þeir þekkja mjög vel til hér og verða þess vegna fljótari að komst inn í skipulagið. Svo auka þeir líka breiddina á liðinu sem skiptir miklu máli þegar verið er að spila marga leiki og dagskráin er þétt."

Þegar Kristján var spurður út í það hvort Hólmar eða Hörður verði í byrjunarliðinu á morgun vildi hann ekkert gefa út um það. "Það verður bara að athuga það þegar leikurinn hefst kl. 16.15. Ég get ekki gefið það upp núna..."

VF-mynd/Þorgils - Hólmar og Hörður handsala samninga sína við Þorstein Magnússon, formann deildarinnar.