Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Tvöfalt tap hjá Grindavík
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 22. maí 2021 kl. 10:10

Tvöfalt tap hjá Grindavík

Grindvíkingar töpuðu öðrum leik sínum í Lengjudeild karla í knattspyrnu í gær þegar þeir tóku á móti Fjölni sem situr með fullt hús stiga á toppi deildarinnar. Á sama tíma tapaði kvennalið Grindavíkur fyrir Gróttu í Lengjudeild kvenna.

Fyrri hálfleikur var frekar jafn og ef eitthvað var þá voru heimamenn líklegri til að skora. Þeim óx ásmeginn eftir því sem leið á hálfleikinn og sköpuðu sér hættuleg færi. Um miðjan hálfleikinn áttu Grindvíkingar góðan skalla að marki Fjölnis en markvörður þeirra sýndi ótrúlegt viðbragð og varði vel.

Það var markalaust í hálfleik en Fjölnismenn náðu yfirhöndinni með einfaldri skyndisókn sem endaði með marki á 57. mínútu og aðeins tveimur mínútum síðar bættu þeir öðru marki við.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grindvíkingar áttu fá svör við þessu og þeim færum sem Grindvíkingar fengu sá markvörður Fjölnis við þeim. Lyktaði leiknum því með sigri Fjölnis.

Grótta - Grindavík 3:1

Grindavík lék gegn Gróttu í þriðju umferð Lengjudeildar kvenna. Grindvíkingar lentu undir snemma í leiknum með tveimur mörkum Gróttu (8' og 13') en Christabel Oduro minnkaði muninn á 16. mínútu. Gróttukonur bættu þriðja marki sínu við á lokamínútu leiksins og lokaniðurstöður 3:1.

Grindavík hefur enn ekki náð sigri í Lengjudeild kvenna en þetta var fyrsta tap þeirra eftir tvö jafntefli.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á Grindavíkurvelli í gær og tók meðfylgjandi myndir á leik Grindavíkur og Fjölnis.

Grindavík - Fjölnir (0:2) | Lengjudeild karla 21. maí 2021