Tvöfalt hjá Keflavík
Karlalið Keflavíkur vann í kvöld sigur á Snæfelli í Meistarakeppni KKÍ sem fram fór í Toyotahöllinni í Reykjanesbæ. Lokatölur leiksins voru 77-73 í frekar bragðdaufum leik, sem var einkennandi fyrir þær sakir að bæði lið léku án erlendra leikmanna.
Keflavík hafði yfirhöndina nær allan leikinn og náðu mest 12 stiga forskoti í leiknum. Staðan í hálfleik var þó 37-38 fyrir Snæfelli þar sem að Sigurður Þorvaldsson skoraði þriggja stiga flautukörfu. Það voru vissulega góð fyrirheit inn í síðari hálfleik.
Annað kom hins vegar á daginn því Keflavík náði fljótlega þægilegri forustu sem þeir létu ekki af hendi. Bæði lið voru dugleg við að skipta inn á leikmönnum og var nokkur haustbragur á spilamennsku beggja liða. Sigur Keflavíkur var aldrei í hættu þrátt fyrir góða baráttu í Snæfellingum á lokamínútunum.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson var atkvæðamestur í liði Keflavíkur með 18 stig. Hörður Axel Vilhjálmsson skoraði 15 stig og Sverrir Þór Sverrisson skoraði 14 stig. Hann gaf að auki sex stoðsendingar og stal fimm boltum. Sigurður Þorvaldsson var atkvæðamestur hjá gestunum, skoraði 23 stig og tók níu fráköst. Atli Rafn Hreinsson skoraði 14 stig og Hlynur Bæringsson skoraði 13 stig. Hlynur lét sér nægja að taka 17 fráköst í kvöld, en alls tóku Snæfellingar 39 fráköst í kvöld sem er 15 fráköstum meira en Keflavík.
Þetta var fyrsti leikur þeirra Hlyns og Sigurðar við stjórnvölinn hjá Snæfell, en þeir tóku við sem þjálfarar liðsins í liðinni viku. Fyrsti titilinn kominn í Keflavík og góður dagur hjá Keflavík þar sem tveir titlar bættust í safnið.
VF-MYNDIR/JJK