Tvöfaldur sigur á Hellu
Torfærukapparnir Gunnar Gunnarsson og Páll Pálsson stóðust pressuna á Hellu um síðustu helgi þegar síðasta torfæra ársins fór þar fram. Gunnar tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í sérútbúnum flokki og Páll hafði sigur í götubílaflokki.
Gunnar var rjúkandi heitur á laugardeginum og segja má að hann hafði tryggt sér sigurinn strax á fyrsta keppnisdegi. Þetta er annar Íslandsmeistaratitill Gunnars í sérútbúnum flokki. Páll var að vinna sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í götubílaflokki.
,,Það voru allir í sínu fínasta formi um helgina og að keyra mjög vel. Ég fullt hús stiga í öllum brautum nema einni og þar sem úrslitin réðust eiginlega á laugardeginum varð sunnudagurinn svolítið kæruleysislegur,” sagði Gunnar sem hafnaði svo í 2. sæti í heimsbikarkeppninni. Keppnin á Hellu var einnig liður í Heimsbikarnum þar Íslendingar fengu illa meðferð eins og Víkurfréttir hafa þegar greint frá. Gunnar kvaðst engu að síður ætla að halda ótrauður áfram og fyrir liggur að Trúðurinn verði til sýnis á nokkrum sýninum á næstunni. Glæsilegur árangur hjá Páli og Gunnari og gaman að sjá hvort þeim takist að verja titla sína á næstu aksturstíð.
VF-Mynd/ Úr safni - Gunnar Gunnarsson með verðlaunagripi við bílinn sinn Trúðinn.