Tvö töpuð stig hjá Njarðvíkingum
Þrátt fyrir að vera sterkari aðilinn í leiknum þurftu Njarðvíkingar að sætta sig við 2-2 jafntefli gegn liði KV í 2. deild karla í fótbolta í gær.
Það var sjálfsmark frá gestunum í KV sem færði Njarðvík forystu rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. Hagur þeirra grænklæddu vænkaðist þegar markvörður KV fékk að líta rauða spjaldið í upphafi seinni hálfleiks. Það voru þó KV-menn sem skoruðu næsta mark og jöfnuðu á 71. mínútu. Þeir náðu svo forystu þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Rafn Markús Vilbergsson jafnaði svo metin í uppbótartíma fyrir Njarðvíkinga. Stuttu síðar var mark dæmt af Njarðvíkingum.
Njarðvíkingar eru í 9. sæti deildarinnar með 16 stig eftir 14 leiki.