Tvö Íslandsmet hjá Erlu Dögg um helgina
Sunddrottningin Erla Dögg Haraldsdóttir úr ÍRB sló tvö Íslandsmet um nýliðna helgi, en hún keppti á Mare Nostrum mótaröðinni í Canet í Frakklandi.
Fyrra metið féll á laugardag, en þá synti hún 200 metra bringusund á 2:32,49 sem er tæplega tveggja sekúndna bæting á 17 ára gömlu meti Ragnheiðar Runólfsdóttur sem var elsta kvennametið á metaskrá SSÍ. Þetta er þriðja Ólympíulágmark Erlu Daggar fyrir var hún búin að ná lágmörkum í 200 m fjórsundi og 100 m bringusundi.
Í gær sló hún svo sitt eigið Íslandsmet í 100m bringusundi á tímanum 1.10.66 sem er glæsileg bæting á meti hennar frá því í apríl sl. sem var 1.11.00.
Hún hafnaði í 8. sæti í úrslitum í 200m bringusundi, en því fimmta í 100m.