Tvö draumahögg í Leirunni
Tveir kylfingar náðu draumahögginu á Hólmsvelli í Leirunni á dögunum. Sævar Ingi Borgarsson og Jón Kr. Magnússon úr Golfklúbbi Suðurnesja gerðu sér lítið fyrir og fóru holu í höggi. Jón Kr. á sextándu braut og Sævar á þeirri áttundu.
Höggið hjá Jóni Kr. var flott, hár bolti sem lenti skammt frá holu og rann í hana. Virkaði frekar létt hjá einum duglegasta kylfingi klúbbsins.
Atvikið hjá Sævari var skrautlegra. Við heyrðum í honum og báðum hann að lýsa högginu.
Áttunda brautin er um 130 metrar að lengd. Sævar sló með sjö-járni og það var talsverður mótvindur. „Ég ætlaði að slá hana lágt sem ég gerði en hitti hann ekki vel heldur svona hálf „skallaði“ boltann. Hann flaug beint á pinna en ég hélt að hann yrði of langur og hafi farið yfir flötina. Ég sá hann ekki fara ofan í þar sem flötin stendur talsvert hærra en teigurinn. Síðan röltum við af stað og boltinn hvergi sjáanlegur á flötinni né út í karganum, Svo var ég kominn að enda flatarinnar hjá karganum þegar ég sneri við og sagði við hollið „Ahh, ég ætla fyrst að kíkja í holuna og tékka þar áður,“ og svo leit ég og öskraði – og það trúði mér enginn í ráshópnum fyrr en þeir kíktu í holuna.
Það skemmtilegasta við þetta var að tveim dögum áður átti ég samræður við nokkra um holu í höggi og ég sagði að líklega ætti ég aldrei eftir að fara holu í höggi,“ sagði Sævar Ingi.