Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Tveir stærstu sjóbirtingarnir í Geirlandinu komu í Keflavíkurhollinu
Laugardagur 29. október 2011 kl. 11:54

Tveir stærstu sjóbirtingarnir í Geirlandinu komu í Keflavíkurhollinu

Haustveiðin gekk frekar illa að þessu sinni vegna vatnavaxta en margir Suðurnesjamenn fara á hverju hausti til veiða í ám Stangveiðifélags Keflavíkur sem eru flestar á suð austur landi. Margar sögur hafa orðið til í Geirlandsá sem er í nágrenni Kirkjubæjarklausturs. Þangað fara margir í sjóbirtingsveiði en hún er ein af þekktustu ám sem SVFK er með á sínum snærum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Rigningarlægðir hafa á köflum gjörsamlega kaffært svæðin í vatni. Hafa mörg hollin ekkert getað veitt heilu vaktirnar og jafnvel heilu dagana. Þeir sem hafa hitt á réttu aðstæðurnar á milli lægða hafa svo lent í góðum „skotum“. Það sem einkennir veiðina þetta haustið er mikið og litað vatn og vænir fiskar,“ segir á heimasíðu SVFK.

Eitt af föstu hollunum í Geirlandsá er skipað gömlu félögunum Magnúsi Haraldssyni og Daða Þorgrímssyni úr Keflavík en þeir eru báðir þaul vanir stangveiðimenn. Halldór sonur Magnúsar og Garðar Newman tengdasonur hans og Falur sonur Daða, hafa fylgt þeim í túrana undanfarin ár, oftast með góðum árangri og svo varð raunin núna í lok september. Þetta var tíunda árið í röð sem hópurinn fór saman í Geirlandið en gömlu mennirnir hafa veitt þarna mun lengur.

Fimmmenningarnir fengu allir flotta sjóbirtinga en stærstu fiskana veiddu Halldór Magnússon og Falur Daðason, 13 punda hvor en fiskur Fals var aðeins þyngri (6,5 kg. á móti 6,3 kg.) Þetta reyndust tveir stærstu birtingarnir í Geirlandinu í ár. Halldór fékk sinn á veiðistaðnum Tóftarhyl í snaggaralegum slag. Svo mikill var buslugangurinn að þegar fiskurinn var kominn upp á grynningar stukku félagar hans út í til að passa að ferlíkið slyppi ekki. Fór það svo að einn krókurinn á spúninum brotnaði um leið og fiskurinn var tekinn í land svo ekki mátti miklu muna að sá stóri færi aftur út í Geirlandsána í öllum látunum.

Falur Daðason fékk innblástur hjá Halldóri og raðaði nokkrum á land morguninn eftir þó svo það hellirigndi, m.a. tveimur stórum fiskum úr Kleifarnefi sem hann fékk á innan við hálftíma. Seinni hluti heila dagsins var óveiðanlegur sökum veðurs en á heildina litið gekk vel hjá þeim félögum og feðgum og átján birtingar komu á land sem var með því mesta sem fékkst í einum túr í haust. Mesta veiðin í túr var 27 fiskar á þessu votviðrasama hausti, að því er fram kemur á heimasíðu félagsins, svfk.is.

Falur Daðason með tvo stóra birtinga, 5,5 og 6,5 kg. en sá stærri var sá stærsti sem veiddist í ánni í haust. Sá minni var veiddur á mepps en sá stóri tók maðk. Halldór Magnússon (efsta mynd) með glæsilegan sjóbirting sem hann veiddi í Tóftarhyl.

Neðsta mynd: Fimmmenningarnir höfðu ástæðu til að fagna árangrinum í Geirlandsá haustið 2011, f.v. Halldór Magnússon, Magnús Haraldsson, Garðar Newman, Daði Þorgrímsson og Falur Daðason.