Tveir júnætit kappar berjast
Ekki eru taldar miklar líkur á að Issi sé búinn eða muni leggja inn umsókn á einkaleyfi fyrir tippkerfið sem hann fann upp, Stafrófskerfið. Spennan í tippleik Víkurfrétta náði sögulegu lágmarki um helgina, allir voru vissir um sigur Issa eftir digurbarkalegar yfirlýsingar hans um þetta tippkerfi sem hann telur sig hafa fundið upp. Skemmst frá því að segja að Maggi Tóka hélt velli, vann 7-6 og er Issa hér með þakkað fyrir aldeilis frábæra innkomu!
Sjö tipparar, enginn frá Íslandi, nældu sér í tæpar tólf milljónir fyrir að ná þrettán réttum, enginn þeirra kom frá Íslandi. Af 200 get-spökum sem náðu tólf réttum var einungis einn Íslendingur, hann og hinir 199 fengu rúmar 155 þúsund krónur í sinn vasa.
Áskorandi vikunnar er fyrrum lögreglumaðurinn úr Keflavík, Einar Helgi Aðalbjörnsson. Hann var mjög virkur í tippinu hér áður fyrr og er ánægður með að fá að spreyta sig og ætlar sér ekkert annað en sigur gegn öðrum United-manni en Einar er gallharður stuðningsmaður Man-chester United. Hann var með sínar skoðanir á stórleik félaganna á sunnudaginn.
„Ég lít á þetta sem tvö töpuð stig frekar en eitt unnið, við vorum rændir sigrinum. Ég skil ekki þetta VAR-kjaftæði! Hvernig stóð á því að VAR skoðaði ekki vítaspyrnudóminn? Liverpool-leikmaðurinn byrjaði að láta sig detta út af engri snertingu og bjó svo til hina snertinguna. Ef VAR hefði skoðað þetta hefði Pool-arinn væntanlega fengið gult spjald fyrir leikaraskap og United hefði landað öruggum sigri en svona er þetta stundum.
Ég og Gummi Sighvats áttum að sjá um getraunir hjá fótboltanum í Njarðvík í denn. Mest spennandi helgi í getraununum var þegar við gleymdum að skila bunkanum. Að fara yfir alla seðlana og þakka fyrir að enginn vinningur kom var mikill léttir.
Ég tippaði bæði á Hringbrautinni og líka hjá Golfklúbbi Suðurnesja, er að vona að félögin hér í Reykjanesbæ bjóði upp á þessa þjónustu á Brons veitingastaðnum, ég sé alveg fyrir mér að hægt sé að mynda góða stemmningu þar.
Mér líst vel á að mæta öðrum United-manni, Maggi Tóka heldur enn velli en ég ætla mér náttúrulega ekkert annað en sigur í þessum leik,“ sagði Einar Helgi.
Sigurinn á Issa kom stallhafanum Magga Tóka ekki á óvart en hann bíður ennþá eftir rauðvínsflöskunni frá Issa.
„Ég skellti upp úr þegar ég sá það sem Issi lét hafa eftir sér, vissi í raun bara strax þá að ég myndi vinna hann. Ég er búinn að tippa í „töttögu og femm ár“ og hef aldrei heyrt aðra eins vitleysu, að tippa eftir stafrófskerfi. Auðvitað hefði verið skemmtilegra að vinna með meira sannfærandi hætti en sigur er sigur, ég bíð spenntur eftir rauðvínsflöskunni frá Issa. Ætli ég kíki ekki við hjá honum á Fish & Chips á Fitjum, kannski bíður hann mín þar með flöskuna,“ sagði Maggi.