Tveir Íslandsmeistaratitlar til UMFN
Njarðvíkingar fögnuðu tveimur Íslandsmeistaratitlum um helgina, í 9. flokki karla og í unglingaflokki.
Unglingaflokkur:
Í gær sigraði unglingaflokkur UMFN Fjölni í úrslitum, 79-72, í jöfnum og spennandi leik þar sem góð vörn í 3. leikhluta lagi grunninn að sigri. Fyrirliðinn Jóhann Árni Ólafsson átti stórleik í úrslitunum. Hann var með 25 stig, 20 fráköst og 5 stoðsendingar. Hjörtur Einarsson kom honum næstur með 17 stig og Daníel Guðmundsson var með 14.
Hörður Vilhjálmsson fór fyrir Fjölnismönnum og var með 25 stig.
Þetta var sannarlega ár Njarðvíkinga í unglingaflokki því þeir sigruðu í öllum leikjum sínum, 12 í deild, undanúrslitum og úrslitum, og eru vel að titlinum komnir.
Þeir Jóhann Árni, Kristján Rúnar Sigurðsson og Daníel luku með þessum sigri ferli sínum í yngri flokkum með viðeigandi hætti en þeir urðu Íslandsmeistarar með ´86 árgangi fjögur ár í röð á árunum 1999 til 2002 og hafa síðan bætt þeim nokkrum við.
Tölfræði leiksins
Nánari umfjöllun á www.umfn.is
9. flokkur:
Í dag urðu svo Njarðvíkingar í 9. flokki Íslandsmeistarar, einnig eftir sigur á Fjölni, 47-45. Liðin hafa skipt með sér meistaratitlum, en UMFN urðu meistarar í minnibolta árið 2004 en Fjölnir sigraði í árgangi '92 síðustu 2 árin. Fjölnismenn höfðu einnig unnið alla sína leiki í vetur áður en kom að úrslitum.
Leikurinn í dag var spennandi eins og lokatölur gefa til kynna, en eftir að hafa verið undir mestallan fyrri hálfleik komu þeir sterkir út í seinni hálfleikinn. Þeir gerðu fyrstu 6 stigin og jöfnuðu 21-21 og náðu frumkvæðinu eftir það með afar góðum varnarleik. Þeir héldu svo forystunni það sem eftir var en um leið og lokaflautið gall missti síðasta skot Fjölnismanna marks og titillinn var í höfn.
Styrmir Gauti Fjelsted fór fyrir liði Njarðvíkinga með 17 stig og 11 fráköst, en þetta var umfram allt sigur liðsheildarinnar.
Hér er tölfræði leiksins
Nánari umfjöllun á www.umfn.is
Myndir/ www.umfn.is