Tuttugu milljóna kr. tap á knattspyrnudeild Grindavíkur - viðræður við Guðjón Þ. á ís
Tuttugu og eins milljóna króna tap varð á rekstri knattspyrnudeildar Grindavíkur á þessu ári. Vegna stöðunnar í fjármálunum hefur viðræðum við Guðjón Þórðarson verið slegið á frest að sögn Jónasar Þórhallssonar, formanns deildarinnar. Hann tók við af Þorsteini Gunnarssyni sem ákvað að víkja úr embætti vegna áhuga meirihluta stjórnarinnar á að fá Guðjón í þjálfarastarfið. Fjallað er um málið á visir.is.
Það er langmesta tap sem orðið hefur á deildinni frá upphafi og þessi staða setur Grindvíkinga í talsverða klípu og gerir það að verkum að ekki verður hægt að semja við Guðjón Þórðarson á næstunni. Mikill leikmannakostnaður hefur verið hjá deildinni.
„Við erum slakir í vinnu þar sem við þurfum að taka á okkar vanda. Við þurfum að klára þá vinnu og setja upp næsta fjárhagsár áður en við getum byrjað að ræða við Guðjón.
Tapið er mikið en á móti kemur að við eigum útistandandi kröfur fyrir tæplega helmingnum af þessu tapi. Reksturinn átti engu að síður að ganga saman í sumar en gerði það ekki. Þetta er í fyrsta skipti síðan hrunið varð að við finnum fyrir þrengingunum af einhverju viti. Þetta er okkar versta útkoma frá upphafi. Við höfum aldrei séð þetta svona svart."
Jónas segir að margt geri það að verkum að knattspyrnudeildin sé í þetta slæmum málum, þar á meðal hár leikmannakostnaður. „Svo sóttum við menn erlendis frá í júlí en það var neyðarúrræði af okkar hálfu."
Grindvíkingar eru að ráðast í ýmsar aðgerðir til þess að rétta reksturinn við. Liður í því er að endursemja við leikmenn og ganga frá starfslokum við leikmenn eins og Michal Pospisil en hann er samningsbundinn Grindavík út næsta sumar. Þeir sem sáu hann spila vita að hann er nýtist Grindvíkingum ekki næsta sumar. „Það myndi létta mikið að losna við hann og svo erum við að semja upp á nýtt við Jamie McCunnie. Það munar um þá.
Þetta er skafl sem þarf að moka. Við þurfum að fara yfir stöðuna með okkar baklandi og leita ráða. Það er mikið af góðu fólki sem styður okkur en við erum í verri stöðu en við höfum áður verið í."
Grindvíkingar lögðu mikið undir til þess að halda sæti sínu í deildinni og fóru snemma til Eyja í lokaleikinn. Jónas segir að sú ferð hafi kostað deildina eina milljón króna en það hafi verið þess virði því félagið hefði orðið af miklum tekjum ef það hefði fallið í 1. deild.
„Það má verðleggja það sæti á 40 milljónir króna þannig að það var ferð til fjár hjá okkur," segir Jónas við Vísi.
Það er mikið verk framundan hjá Grindvíkingum að snúa blaðinu við í rekstri knattspyrnudeildarinnar. Myndin er úr leik við Blika í sumar. Skotinn Scott Ramsey skorar. VF-mynd/Eyþór Sæm.