Toppliðið lá fyrir Grindavík
Grindvíkingar unnu öruggan sigur í gærkvöldi á KR, toppliði IE-deildar karla í körfuknattleik. Úrslit urðu 84-67 en leikurinn fór fram í Grindavík.
Eftir frekar brösótt gengi á tímabilinu, m.a. vegna meiðsla leikmanna, er greinilega mikill hugur í Grindavíkurliðinu þessa dagana og ljóst að þeir ætla að blanda sér í toppbaráttuna í deildinni. Leikurinn í gær bar þess glöggt vitni.
Grindvíkingar komu greinilega vel stemmdnir til leiks og leiddu eftir fyrsta leikhlutann, 28-16. KR söxuðu hæg og bítandi á forskot heimamanna í öðrum fjórðungi og komust undir lok hans yfir, 41-42 með frábærum leikkafla Tommy Johnson sem setti niður þrjá þrista í röð.
Mikil spenna var hlaupin í leikinn og skiptust liðin á að taka forystu í þriðja leikhlutanum. Grindavík hafði aðeins einu stigi betur í lok hans, 57-56.
Villuvandræði voru farin að hrjá bæði liðin í fjórða leikhluta. Grindavíkingar voru hins vegar yfirvegaðir og með seiglunni brutu þeir á bak aftir sóknarleik KR-inga.
Þegar rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka sauð upp úr á milli Tommy Johnson og Þorleifs Ólafssonar þar sem Tommy uppskar óíþróttamannslega villu fyrir að sýna Þorleifi ógnandi tilburði. Grindvíkingar tóku vítin sem fylgdu og breyttu stöðunni í 77-62. Varnarleikur Grindvíkinga var KR-ingum ofraun og síðustu mínutur leiksins voru algjörlega Grindvíkinga, sem sigruðu sem fyrr segir 84-67.
Þorleifur Ólafsson var stigahæstur í liði Grindavíkur með 19 stig en næstur honum voru þeir Darrell Flake og Ómar Sævarsson báðir með 15 stig. Ómar hirti að auki 12 fráköst.
Nánari umfjöllun um leikinn má lesa hér á www.karfan.is
Mynd/www.karfan.is