Töp hjá Grindavík og Keflavík
Njarðvíkingar sigruðu Snæfellinga
Suðurnesjaliðin áttu misjöfnu gegni að fagna í körfubolta karla í gær. Keflvíkingar fengu skell fyrir norðan á meðan Grindvíkingar glopruðu niður forskoti gegn ÍR-ingum. Njarðvíkingar unnu hins vegar sigur gegn Hólmurum.
Keflvíkingar gerðu ekki góða ferð norður þegar þeir töpuðu gegn Tindastólsmönnum í Domino's deild karla í körfubolta í gær. Keflvíkingar voru heldur fáliðaðir sökum meiðsla og töpuðu 97-74. Guðmundur Jónsson skoraði 23 fyrir Keflvíkinga og William Graves var með18 stig. Fyrrum leikmaður Tindastóls, Þröstur Leó Jóhannsson var svo með góða tvennu, 11 stig og 11 fráköst.
Grindvíkingum tóks á ótrúlegan hátt að tapa niður góðri forystu gegn ÍR í lokaleikhlutanum. þegar liðin áttust við í Breiðholti. Síðasta leikhlutanum töpuðu þeir 30-7 og því leiknum með fimm stigum, 90-85. Oddur Rúnar Kristjánsson skoraði 20 stig fyrir Grindavík og Ólafur Ólafsson 17, en hann daðraði við þrennu, með 9 fráköst og 8 stoðsendingar.
Njarðvíkingar unnu sigur gegn Snæfellingum á heimavelli sínum, 98-83, þar sem þrír leikmenn skoruðu yfir 20 stig hjá heimamönnum. Þrátt fyrir slæma byrjun tókst Njarðvíkingum að hrista Snæfellinga af sér og vinna nokkuð þægilegan sigur.