Toggi bauð best í treyju Gylfa Sig.
Meistaraflokkur Þróttar í Vogum eru á fullu þessa daganna að fjármagna ferðalög sumarsins með hinum ýmsu leiðum. „Á dögunum fór fram uppboð á Everton treyju áritaðri af okkar besta landsliðsmanni,“ segir á fésbókarsíðu Þróttar.
Fyrirtækið Toggi ehf. í Vogum bauð 200.000 kr „… og kunnum við Togga okkar bestu þakkir fyrir hans framlag og styðja svona vel við bakið á okkur þegar félagið er að spila í fyrsta sinn í 2. deildinni. Toggi sagði við þetta sama tækifæri að með þessum stuðningi vildi hann hvetja meistaraflokk áfram til góðra verka og gaman væri að fylgjast með Þrótturum sem væru komnir á kortið í fótboltanum. Þetta væri hans leið til að leggja í púkkið og styðja við sjálfboðaliðastarfið hjá knattspyrnudeildinni,“ segir jafnframt í færslunni á fésbókinni.
Toggi ehf. er farsælt og rótgróið fyrirtæki í Vogum sem sér um viðgerðir og lagfæringar á bátum frá kili að masturs-toppi og allt þar á milli og staðsett í Iðndalnum.