Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Tíu Keflvíkingar töpuðu fyrir Val
Mánudagur 27. ágúst 2012 kl. 20:27

Tíu Keflvíkingar töpuðu fyrir Val

„Það er ömurlegt þegar dómaratríóið getur eyðilagt leikinn eins og núna. Við komum til leiks til að spila fótbolta en Valsmenn komu í öðrum tilgangi og léku gríðarlega grófan leik og þegar við sáum fram á að þurfa að svara með svipuðum leik fengu við að kenna á því hjá þeim svartklæddu,“ sagði Keflvíkingurinn Guðmundur Steinarsson eftir 0-4 tap gegn Valsmönnum í Pepsi-deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Guðmundur var afar ósáttur við störf dómaratríósins í leiknum eins og heyra má í videoviðtali við hann hér á síðunni.

Valsmenn náðu forystu á 15. mínútu með ótrúlegu klaufamarki. Boltinn rann í gegnum markteiginn eftir aukaspyrnu frá endalínu við vítateig og einhvern veginn náðu gestirnir að ýta boltanum inn í fjærhornið. Hreint ótrúlega klaufalegt. Hilmar Geir Eiðsson hafði brotið á Valsmanni og þannig fengu Valsmenn aukaspyrnu á hættulegum stað. Þetta var greinilega ekki dagur Hilmars því vendipunktur varð í leiknum þegar hann var rekinn af velli fyrir grófa tæklingu á 29. mínútu. Þrátt fyrir það mótlæti elfdust heimamenn og náðu að halda haus þar til í blálokin þegar þrjú Valsmörk komu í andlitið á þeim á síðustu tíu mínútunum.

Heimamenn léku laskaðir í kvöld ef svo má segja því þeir söknuðu nokkurra fastamanna vegna leikbanna og meiðsla en þeir Frans Elvarsson, Denis Selimovid, Einar Orri Einarsson og  Hörður Sveinsson voru utan vallar. Þá er Arnór Ingvi Traustason farinn til Noregs og því óhætt að segja að Keflvíkingar hafi verið í erfiðri stöðu fyrir leikinn. Á varamannabekknum mátti sjá unga kappa sem hafa ekki verið í hópnum í sumar eins og Samúel Friðjónsson og Elías Már Ómarsson.
Keflvíkingar eru í 7. sæti með 24 stig eftir þessa umferð. Með sigri í kvöld hefðu þeir farið í 3.-5. sæti deildarinnar en það er stutt á milli liða frá 3. og niður í 9. sæti.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Texti: Páll Ketilsson // Myndir: Hilmar Bragi Bárðarson