Tíu ára hleypur 10 km fyrir 10 ára Minningarsjóð Ölla
Ár hvert hleypur hópur fólks í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka til styrktar minningarsjóðs Ölla. Í ár eru 17 einstaklingar sem hlaupa í nafni sjóðsins en þar á meðal er hinn tíu ára gamli Njarðvíkingur Hafsteinn Leó Sævarsson. Hafsteinn er eftir því sem við best vitum, yngsti hlauparinn sem ætlar að þreyja 10 km hlaup og hefur þegar þetta er skrifað safnað alls 60.000 kr. sem er tvöföldun á markmiði hans.
Minningarsjóður Ölla fagnar nú tíu ára afmæli sínu en sjóðurinn stuðlar að því að styrkja börn til íþróttaiðkunar sem ekki eiga kost á því vegna bágrar fjárhagsstöðu foreldra eða forráðamanna. Sjóðurinn var stofnaður í minningu Örlygs Arons Sturlusonar sem lést árið 2000. Hafsteinn tók sjálfstæða ákvörðun um að velja sjóðinn þrátt fyrir að vita ekki hver Ölli var og að hann væri Njarðvíkingur eins og Hafsteinn sjálfur. „Ég er núna búinn að sjá myndina um Ölla og mér fannst hún alveg geggjuð,“ segir Hafsteinn Leó. Hann sagðist hafa valið sjóðinn vegna þess að hann tengist íþróttum en honum finnst að öll börn eigi að fá að æfa íþróttir. Sjálfur æfir Hafsteinn körfubolta og fótbolta með Njarðvík.
Hleypur með Loga Gunnars
Nýjasta áhugamál Hafsteins er útihlaup en hann hefur verið duglegur að æfa hlaup í sumar. Metnaðurinn er til staðar en Hafsteinn ætlar sér að hlaupa á undir 60 mínútum. „Ég tek pabba oftast með mér út að hlaupa en ég er alltaf á undan honum. Ég er spenntur fyrir hlaupinu á laugardaginn en mér finnst gaman þegar fullt af fólki er að hvetja mig áfram,“ segir Hafsteinn sem hljóp skemmtiskokkið í fyrra til styrktar Barnaspítala Hringsins.
Alls eru 17 hlauparar að safna fyrir Minningarsjóð Ölla og þeirra á meðal er æskuvinur Ölla, körfuboltagoðsögnin Logi Gunnarsson. Hafsteinn er meðvitaður um að Logi er að hlaupa 10 km eins og hann sjálfur. „Ég vonast til þess að hitta á hann og fá jafnvel mynd af mér með honum,“ segir Hafsteinn spenntur. Þau sem vilja heita á Hafstein eða aðra góða hlaupara geta smellt á eftirfarandi hlekk: https://www.rmi.is/