Tippmeistarinn skellti sér á Wembley
„Maður á alltaf að segja já,“ segir tippmeistari Víkurfrétta, Hámundur Örn Helgason. Víkurfréttir endurvöktu tippleikinn í vetur eftir langt hlé. Verðlaunin voru ekki af síðri endanum, ferð til London á úrslitaleikinn í enska bikarnum á Wembley, stærsta leik ársins í enska boltanum. Liðin sem mættust voru liðin frá Manchester, United og City.
Hámundur, sem er Njarðvíkingur, bar sigur úr býtum en leikurinn var þannig að tveir tipparar mættust og sigurvegarinn hélt áfram og mætti nýjum áskoranda. Fjórir enduðu efstir og eftir undanúrslit og svo úrslit stóð Hámundur á tindinum. Blaðamaður sótti hann fyrir flug föstudagsmorguninn 24. maí og leikurinn var daginn eftir.
Þegar komið var að Wembley-leikvanginum á leikdegi var strax haldið á The Torch sem er pöbb þar sem stuðningsmenn Manchester United mættu og kyrjuðu söngva sína. Þar rákumst við á keflvíska parið Jón Halldór Eðvaldsson og Marínu Rós Karlsdóttur. Marín er gallharður stuðningsmaður Manchester United og var spurð út í orðróm þess efnis að reisa eigi styttu af henni við Old Trafford, völl United, því henni tókst að snúa Jóni Halldóri frá Liverpool til United.
„Það var ekki mikið mál að snúa Jonna, ég held að hann hafi alltaf verið United-maður innst inni. Það verður gaman að fagna á spönginni í dag,“ sagði Marín. Jonni var inntur eftir viðbrögðum.
„Bara alls ekki! Ég segist stundum vera United-maður þegar komið er inn í svefnherbergi, þú skilur – en nei, United-maður verð ég aldrei en ég er það klárlega í dag. Ég er mættur hingað með Marínu minni til að hjálpa ykkur yfir þröskuldinn,“ sagði Jonni.
Hámundur tippmeistari var líka peppaður á þessum skemmtilega stað.
„Það er geggjað að vera kominn hingað. Það er ekki erfitt að detta í þessa United-söngva þó svo að ég sé ekki stuðningsmaður liðsins. Tottenham er mitt lið en ég held ég geti viðurkennt að United er orðið lið númer tvö hjá mér, ekki síst þar sem afi er United-maður. Ég keypti þessa treyju sem ég er í fyrir hann og klæðist henni kátur á Wembley í dag. “
You should say yes
Þegar blaðamaður og Hámundur gengu inn á leikvanginn munaði minnstu að hljóðnemarnir sem blaðamaður var með, væru teknir af honum. Við vorum sendir til annars gæslumanns sem spurði mig hvort ég væri með lyfin mín í bakpokanum. Heiðarlegur neitaði ég þeirri spurningu, ég væri með hljóðnema og annað sem ég þyrfti vegna blaðamannastarfsins. Viðkomandi gæslumaður treysti okkur og sagði þessa gullnu setningu: „You should say yes,“ [þú ættir að svara já]. Ég breytti þá svari mínu, sagðist vera með lyfin mín í töskunni og taskan flaug inn og við félagarnir hlógum mikið af þessu og vorum á því að hugsanleg fyrirsögn á greinina væri fædd!
Leikurinn byrjaði og var gríðarleg stemmning á meðal United-aðdáenda sem sungu linnulaust allan tímann. Hvort stuðningsmenn City voru eitthvað að syngja skal ósagt látið, alla vega heyrðum við ekkert í þeim. Háir stuðlar voru á sigri United í þessum leik, þ.e. að allir bjuggust við öruggum sigri Englandsmeistara Manchester City en Rauðu djöflarnir ætluðu greinilega að selja sig dýrt og uppskáru mark á þrítugustu mínútu. Allt ætlaði um koll að keyra í stúkunni og var greinilegt á Hámundi að hann var rauður í gegn þennan dag! Ekki voru fagnaðarlætin minni þegar United komst í tvö núll níu mínútum síðar en blessunarlega tókst blaðamanni að byrja að taka upp myndband nokkrum sekúndum áður en boltinn lá í netinu!
Frábær hálfleiksstaða fyrir okkur félagana
„Þetta er búið að vera langt framar mínum væntingum og vonum fyrir leikinn, þetta er búið að vera frábært og að United skuli vera tvö núll yfir er auðvitað meiriháttar. Þvílíka stemmningin í stúkunni, ég hef oft áður komið á Wembley að sjá mína menn í Tottenham en þá var hann aldrei fullur og stemmningin því ekki í líkingu við þá sem er í dag. Þegar ég tók þátt í þessum tippleik í vetur óraði mig nú ekki fyrir þessu en eins og sást áðan, þegar þú slappst í gegn með bakpokann, á maður bara að segja já. Ef ég hefði ekki samþykkt að taka þátt í þessum tippleik hefði ég aldrei komist í þessa frábæru ferð.
Ég er fæddur og uppalinn Njarðvíkingur en hef líklega hálfan hluta ævi minnar líka búið á Blönduósi. Ég og konan mín fluttum svo til Njarðvíkur árið 2019 þegar barnið okkar var á leiðinni og unum við okkur mjög vel í Innri-Njarðvík. Ég er búinn að vera framkvæmda- og íþróttastjóri Ungmennafélagsins Njarðvíkur og er alsæll í því starfi. Það er mikil uppbygging í gangi, karfan á leið í nýtt íþróttahús og knattspyrnuliðið okkar efst í Lengjudeildinni, svo ég held að mér sé óhætt að segja að framtíð íþrótta í Njarðvík sé björt. Ef þú spyrð mig út í pælingar með sameiningu Keflavíkur og Njarðvíkur hef ég mínar efasemdir um það, bæði félög eru geysilega sterk og Reykjanesbær ræður vel við að halda úti tveimur toppliðum. Við Njarðvíkingar voru grátlega nærri að vera með bæði liðin okkar í úrslitum körfunnar og Keflavíkurkonur urðu auðvitað Íslandsmeistarar. Metnaðurinn er mjög mikill hjá báðum félögum svo ég held að best sé að láta þau keppa í sitt hvoru lagi. Kannski mætti skoða samstarf í yngri flokkum, ég væri alveg til í að skoða það þegar við á, við þurfum að gera það sem er best fyrir börnin og félagið,“ segir Hámundur Örn.
Áhorfendur fengu spennu í leikinn þegar City minnkaði muninn tæpum tíu mínútum fyrir leikslok en United hélt út og gríðarleg fagnaðarlæti brutust út meðal þeirra rauðu. Hámundur vissi hver myndi blæða á barnum þetta kvöld því blaðamaður hafði gert það gott í veðmálum dagsins! Ekki gafst ráðrúm til að ræða saman eftir leikinn svo púlsinn var tekinn á veitingastað skammt frá Wembley.
„Ég veit ekki hvað skal segja, þetta er einn skemmtilegasti leikur sem ég hef farið á og hef ég nú farið á þá nokkra í gegnum tíðina. Þetta var bara eitthvað allt annað inni á Wembley í dag. Við vorum á frábærum stað með flottum stuðningsmönnum United og eins og ég segi, ég gæti ekki verið ánægðari með ferðina og leikinn.
Við vinirnir höfum stundað undanfarin ár að fara á leiki í hinum og þessum deildum, sú eftirminnilegasta er líklega ferð á leik í portúgölsku deildinni. Þeir voru vel blóðheitir stuðningsmenn Sporting Lissabon sem tryggði sér titilinn með sigri í þeim leik. Það var rosalega stemmning og upp hefur vaknað hugmynd hjá hópnum að skella sér á leik í argentísku deildinni. Ég held að sú ferð muni jafnvel toppa þessa ferð á Wembley núna. Annars vil ég bara þakka styrktaraðilum leiksins, Njóttu ferðum og Icelandair, ásamt Víkurfréttum að sjálfsögðu, kærlega fyrir mig. Ég er sko alveg til í að taka þátt í tippleiknum aftur á næsta tímabili. Vona innilega að þið haldið áfram með þennan flotta leik,“ sagði Hámundur Örn að lokum.