1. maí 2024
1. maí 2024

Íþróttir

Tipparar hittast á Brons
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 1. desember 2023 kl. 10:02

Tipparar hittast á Brons

Einhvern tíma er allt fyrst, það átti við á laugardaginn en þá tapaði Jóhann Birnir Guðmundsson í fyrsta skipti fyrir Njarðvík. Hámundur Örn Helgason tók fyrrum atvinnumanninn úr ensku úrvalsdeildinni 7-6 í leik sem bauð ekki upp á hátt stigaskor en mikið var um óvænt úrslit. Þrettán réttir gáfu tæpar tíu milljónir svo það má sjá að seðillinn var erfiður. Hámundur heldur því velli og röðin er aftur komin að Grindvíkingi og varð Bjarki Guðmundsson fyrir valinu en hann hefur oft verið með puttana í getraunastarfi knattspyrnudeildar UMFG í gegnum tíðina. Bjarka líst vel á komandi slag gegn Hámundi.

Grindvískir tipparar komu sér vel fyrir á Brons um síðustu helgi.

„Ég var að reyna finna mynd af mér síðan ég var í tippleik Víkurfrétta, fyrir sennilega um 35 árum síðan. Mig minnir að ég hafi unnið þá og stefni að sjálfsögðu á að vinna Hámund. Ég var gutti þegar ég byrjaði að selja getraunaseðla fyrir Knattspyrnudeild Grindavíkur, þá gekk maður í hús og seldi. Svo hef ég af og til verið með puttana í starfinu í Gula húsinu og bara gaman að fá að taka þátt núna í tippleik Víkurfrétta. Ég mun pottþétt mæta á Brons á laugardaginn, þykist vita að Gunnar Már verði mættur þangað til að gefa grindvískum tippurum kost á að tippa og skora á hin félögin hér í Reykjanesbæ, að gera slíkt hið sama. Þetta verður mjög skemmtilegur hittingur ef tipparar koma saman, spá í heimsmálin og komandi seðil. Ég hlakka mikið til laugardagsins,“ sagði Bjarki.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hámundi líst vel á að fá Grindvíking aftur að borðinu. „Ég mun ekki sýna Bjarka neina miskunn þótt ástandið í heimabænum hans sé ekki gott. Það hefur verið gaman að fylgjast með getraunastarfi Grindvíkinga í Gula húsinu í Grindavík og ég vona að mínir menn í Njarðvík taki við sér og þessi hefð verði til. Það mun Njarðvíkingur mæta á Brons á laugardaginn til að sjá um tippið og mun ég hringja í nokkra valinkunna sem munu mæta og haka við 260 til stuðnings við knattspyrnudeild Njarðvíkur. Ég hef verið að hitta nokkra góða í Ljónagryfjunni og þeir eru ósáttir við að ég minnist aldrei á þá á meðan ég er í tippleik Víkurfrétta, ég er hér með búinn að því og hlakka til að hitta þá félaga mína á Brons á laugardaginn,“ sagði Hámundur.