Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Tipparar hittast á Brons
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 24. nóvember 2023 kl. 06:05

Tipparar hittast á Brons

Tippleikur Víkurfrétta snýr aftur eftir landsleikjahlé en eins og fram koma í síðasta blaði sló Njarðvíkingurinn Hámundur Örn Helgason Vogamærina Petru Ruth Rúnarsdóttur út síðast þegar var tippað. Þar sem tipparar geta líkt stutt við bakið á Golfklúbbi Suðurnesja kemur áskorandinn úr þeirra röðum en hann er enginn annar en fyrrum atvinnumaðurinn í knattspyrnu, Jóhann Birnir Guðmundsson.

Veitingastaðurinn Brons mun í fyrsta skipti hýsa tippþjónustuna en von er á Grindvíkingum sem hafa alltaf verið duglegir að tippa í Gula húsinu sínu við knattspyrnuvöllinn. Það verður bið á því að grindvískir tipparar tippi þar og bjóða eigendur Brons þá velkomna til sín á laugardaginn en þá er heldur betur stórleikur, Manchester City – Liverpool. Kjörið tækifæri að fá sér gott í gogginn, horfa á leikinn, spá í seðil dagsins og styðja við bakið á sínu félagi en 26% af verði getraunaseðilsins rennur til þess félags sem hakað er við.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jóhann segist aldrei hafa tapað fyrir Njarðvík og ætlar ekki að byrja á því núna. Hann er líklega þekktastur fyrir að hafa leikið með Watford í ensku úrvalsdeildinni en hann lék sem atvinnumaður um ellefu ára skeið. „Ég er úr Garðinum og hóf meistaraflokksferilinn með Víði árið 1993. Færði mig svo yfir til Keflavíkur en var svo keyptur til Watford í Englandi í lok félagaskiptagluggans í mars 1998. Þá voru þeir að berjast um að komast upp í Championship-deildina [önnur efsta deildin í Englandi] og það tókst. Ég kom ekkert við sögu á þessum fáu mánuðum það tímabilið en spilaði mikið árið eftir þegar við tryggðum okkur sæti í Premier League í gegnum Playoffs. Við féllum strax og ég tók næsta tímabil með þeim líka en færði mig þá yfir til Lyn í Noregi. Lauk atvinnumannaferlinum í Svíþjóð og spilaði með Örgryte og GAIS. Svo kom ég heim og spilaði upp að fertugu með Keflavík en eftir fótboltaferilinn tók golfið við. Ég hellti mér strax á fullu í golfið, náði fljótlega góðum tökum og er með níu í forgjöf í dag. Ég er í GS og stefni á að spila sem mest en spurning hvort ég hafi tíma, ég er bæði að vinna fyrir barnaverndarnefnd Suðurnesjabæjar og þjálfa ÍR í fótboltanum. Við tryggðum okkur sæti í Lengjudeildinni og það verður gaman að koma á Suðurnesin næsta sumar og mæta Keflavík, Njarðvík og Grindavík,“ sagði Jóhann.

Hámundur var að sjálfsögðu ánægður með sigurinn gegn Petru og ætlar sér að staldra lengur á toppnum en hún og Eva gerðu, helst vill Hámundur velta Jónasi úr sessi sem forystusauði. Hámundur, sem er framkvæmdastjóri Njarðvíkur, á von á því að einhver frá knattspyrnudeild Njarðvíkur mæti á Brons í hádeginu á laugardaginn. „Ég mun leggja mig allan fram svo þessi skemmtilega hefð festi sig í sessi hjá okkur Njarðvíkingum. Ég veit hversu góður andi getur myndast í kringum svona lagað og mjög gaman þegar menn og konur koma saman á laugardegi, skrafa um hversdagsmálefnin og tippa. Kjörið tækifæri að hefja þessa hefð á laugardaginn, mæta á Brons um hádegisbil, ekki síst til að styðja við bakið á Grindvíkingum en Brons mun halda samverustund fyrir Grindvíkinga og aðra gesti sem hefst kl. 14. Ég mun sko ekki láta mig vanta,“ sagði Hámundur.

Því miður birtist rangur seðill Jóhanns í prentaðri útgáfu Víkurfrétta.