Tinna lék á 69 höggum og sló vallarmetið
Tinna Jóhannsdóttir úr Keili hefur tekið forystuna í kvennaflokki í Íslandsmótinu í höggleik sem fram fer í Leirunni um helgina þegar hún lék á 69 höggum í gær eða þremur höggum undir pari.
Hún bætti þar með vallarmetið á Hólmsvelli í Leiru af bláum teigum um eitt högg en það var áður í eigu Ragnhildar Sigurðardóttir úr GR og Ólafíu Þórunnar Kristinsdóttur úr GR.
Tinna setti niður gott pútt fyrir fugli á 18. holunni til að tryggja sér vallarmetið. Tinna hefur verið í frábæru formi að undanförnu og unnið nánast öll þau mót sem hún hefur tekið þátt í. Hún hefur unnið bæði mótin á Eimskipsmótaröðinni í sumar sem hún hefur tekið þátt í og varð klúbbmeistari Keilis um síðustu helgi.
Tinna fékk fimm fugla og tvo skolla á hringnum í dag. Hún var á pari eftir fyrri níu holurnar en lék seinni níu holurnar vel eða á þremur höggum undir pari.
Nánar má lesa um golfið á Kylfingi.is.