Tinna Hrönn er á skotskónum þessa dagana
Grindvíkingar unnu sinn annan sigur í röð í Lengjudeild kvenna í gærkvöldi þegar þær lögðu Augnablik að velli með þremur mörkum gegn engu. Tinna Hrönn Einarsdóttir var hetja Grindvíkinga en hún skoraði öll mörkin. Tinna er heldur betur á skotskónum þessa dagana en auk þrennunar í gær skoraði hún bæði mörk Grindavíkur í sigri á Fjölni þar á undan.
Augnablik - Grindavík 0:3
Tinna opnaði markareikninginn á 11. mínútu þegar hún skoraði fyrsta mark leiksins, hún bætti tveimur mörkum við í síðari hálfleik (64' og 66').
Grindavík er komið með sautján stig í sjötta sæti Lengjudeildar kvenna og siglir lygnan sæ um miðja deild.