Tímamótaleikir hjá Guðmundi og Magnúsi
Knattspyrnumennirnir Guðmundur Steinarsson og Magnús Þorsteinsson, leikmenn Keflavíkur, léku tímamótaleiki fyrir Keflavík á dögunum þegar liðið skellti Íslandsmeisturum Vals 5-3 í fyrsta leik Landsbankadeildarinnar. Magnús lék sinn hundraðasta leik fyrir Keflavík en Guðmundur er nú kominn í 150 leiki fyrir Keflvíkinga og er orðinn þriðji markahæsti leikmaður liðsins í efstu deild.
Magnús lék sinn fyrsta deildarleik í efstu deild einmitt gegn Valsmönnum í ágúst 1999 en hann hefur gert 18 mörk í þessum 100 leikjum með Keflavík og 12 mörk í næstefstu deild. Auk þess hefur Magnúst spilað 14 bikarleiki (4 mörk) og 5 Evrópuleiki (1 mark).
Guðmundur sem er fyrirliði Keflavík er kominn í 150 leiki en hans fyrsti úrvalsdeildarleikur var árið 1996 og er hann nú áttundi leikjahæsti leikmaður Keflavíkur frá upphafi. Ólafur Júlíusson lék á sínum tíma 151 leik og Jón Ólafur Jónsson 154 og Guðmundur fer því að öllu óbreyttu upp í 6. sæti listans á næstunni. Þar fyrir ofan er Gestur Gylfason með 172 leiki og efstur er Sigurður Björgvinsson með 214. Með fjölgun liða í deildinni verða menn svo auðvitað fljótari að safna leikjum í sarpinn. Auk deildarleikjanna hefur Guðmundur spilað 26 bikarleiki (16 mörk) og 9 leiki í Evrópukeppnum (3 mörk).
Með mörkunum tveimur sem hann skoraði gegn Val er Guðmundur búinn að skora 50 mörk fyrir Keflavík í efstu deild. Hann er nú 3. markahæsti leikmaður Keflavíkur frá upphafi og er kominn upp fyrir Ragnar heitinn Margeirsson sem skoraði 48 mörk. Næstur er Óli Þór Magnússon með 57 mörk og markahæsti leikmaður félagsins er Steinar nokkur Jóhannsson með 72 mörk. Guðmundi vantar því ennþá 22 mörk til að ná karli föður sínum en það er heldur styttra í Óla Þór.
VF-Mynd/ Þorgils Jónsson, [email protected]– Frá leik Keflavíkur og Vals í fyrstu umferð Landsbankadeildarinanr þetta sumarið.