Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Tímamóta samningur undirritaður
FEinar Haraldsson, Kjartan Már Kjartansson, Ólafur Eyjólfsson og Eva Stefánsdóttir.
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
föstudaginn 7. febrúar 2020 kl. 07:43

Tímamóta samningur undirritaður

Þriðjudaginn 28. janúar var skrifað undir samstarfssamning Reykjanesbæjar, Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags og Ungmennafélags Njarðvíkur. Um er að ræða tímamótasamning en með honum verður íþróttafélögunum gert kleift að ráða íþróttastjóra til starfa sem mun nýtast öllum deildum félaganna.

Með samningi þessum stígur Reykjanesbær mikilvægt skref en samningurinn inniheldur fjármagn sem nýtist vel til innra starfs. Samningurinn rammar inn þau verkefni sem sveitarfélagið er að styðja við með einum og öðrum hætti svo sem þjálfarasamninga við Íþróttabandalag Reykjanesbæjar, rekstur knattspyrnusvæða, reiknuð afnot íþróttamannvirkja, íþrótta- og afrekssjóðinn svo dæmi séu tekin.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Reykjanesbær gerir sameiginlegar kröfur með íþróttafélögunum um að jafnréttis sé gætt, að félögin hugi sérstaklega að því að mæta þörfum barna og ungmenna sem eru af erlendum uppruna og að íþróttafólk félaganna sé til fyrirmyndar í leik og starfi.

Einar Haraldsson, formaður Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags:

Samningurinn skiptir miklu máli

„Samstarfssamningurinn við Reykjanesbæ skiptir okkur miklu máli og er vonandi bara fyrsta skref af mörgum til að styðja við innra starf félagsins sem er ansi mikið. Samningurinn gerir okkur kleift að ráða einn starfsmann í viðbót á skrifstofu félagsins. Starfsmaðurinn mun létta undir vinnu gjaldkera deildanna sem allir eru sjálfboðaliðar og vinnan er í raun sérfræðivinna. Stuðningur við afreksstarfið er líka mjög svo jákvætt skref og stærra en margur heldur. Nú er komin viðurkenning á þessu mikla og fjárfreka starfi, að halda úti meistaraflokkum, sem er mjög góð auglýsing fyrir Reykjanesbæ og skapar fleiri yngri iðkendur. Það er jú markmið okkar að sem flestir stundi íþróttir því að góð lýðheilsa skiptir samfélagið máli. Rannsóknir sýna að fyrir hverja eina krónu sem sett er í íþróttastarfið skila þrjár krónur sér til baka í samfélagið. Ég vil þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg og gerðu þennan samstarfssamning að veruleika. Reykjanesbær, takk fyrir samstarfssamninginn.“

Ólafur Eyjólfsson, formaður Ungmennafélags Njarðvíkur:       

Mikilvægt uppeldisstarf fer fram í íþróttafélögunum

„Ég tel að þetta sé tímamótasamningur og afar ánægjulegt að bærinn sé að taka þessa stefnu í íþróttamálum. Við hjá Njarðvík erum afar þakklát og finnum að það er kominn mikill skilningur á því að íþróttafélögin séu að vinna mikilvægt uppeldisstarf sem hefur verið unnið að stærstum hluta í sjálfboðavinnu fram að þessu og verður örugglega áfram því að hugsjónin má aldrei deyja. Ég tel að það sé lykilatriði að það sé hægt að ráða inn starfsmann eða starfsmenn sem vinna fyrir allar deildir UMFN og gera allt innra starf skilvirkara, þetta er fyrsta skrefið. Að lokum vil ég þakka því fólki hjá Reykjanesbæ sem stendur að þessum málum, og í þeim spennandi verkefnum sem eru framundan, fyrir ánægjulegt samstarf.“                             

Eva Stefánsdóttir, formaður íþrótta- og tómstundaráðs:

Samningurinn er í takt við málefnasamning meirihlutans

„Samstarfsamningur á milli Reykjanesbæjar og íþróttafélaganna hefur í gegnum árin aðallega snúið að rekstri knattspyrnusvæða, þjálfarasamninga við ÍRB, íþrótta- og afrekssjóð og fleira. Með mikilli fjölgun barna í íþróttum er aukið álag á sjálfboðaliða og það var orðið tímabært að skoða lausnir í samstarfi við íþróttafélögin, t.d. að gera íþróttafélögunum kleift að ráða íþróttastjóra er því eðlileg þróun í stækkandi bæjarfélagi og í takt við það sem önnur sveitarfélög eru að gera fyrir sín íþróttafélög. 

Samningurinn hefur því mjög mikla þýðingu fyrir íþróttafélögin okkar sem geta nú einbeitt sér að því að efla barna- og ungmennastarf sitt enn frekar og nýtist vel til innra starfs.

Við í íþrótta- og tómstundaráði fögnum þessum tímamótasamningi innilega og erum ánægð með þann stuðning sem hann hefur fengið, enda er hann í takt við málefnasamning meirihlutans.“