Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Tímamót í íslenskri hnefaleikasögu
Fimmtudagur 1. mars 2007 kl. 11:14

Tímamót í íslenskri hnefaleikasögu

Hnefaleikafrömuðurinn Guðjón Vilhelm heldur til Þýskalands á morgun til þess að dæma heimsmeistarabardaga á vegum Alþjóða hnefaleikasambandsins eða WBA. Guðjón er fyrsti Íslendingurinn sem dæmir fyrir WBA og segir það mikinn heiður og stórt skref fyrir hann persónulega að hafa verið boðaður í verkefnið.

 

Í janúar hélt Guðjón til Svíþjóðar og var þar dómari í fyrstu atvinnumannahnefaleikakeppninni þar í landi í 37 ár. Þar vingaðist Guðjón við rétta aðila með íslenska hákarlinn að vopni.

 

,,Í Svíþjóð kynntist ég Ove Ovesen en hann hefur dæmt hnefaleika síðan 1974 og dæmdi m.a. bardaga hjá Muhammed Ali. Ég gaf honum íslenskan hákarl og upp hófst á meðal okkar góður vinskapur. Í kjölfar starfa minna í Svíþjóð sendi Ove bréf til WBA og mældi með mér sem dómara,” sagði Guðjón.

 

Bréfið frá Ove rataði rétta leið og fyrir um hálfum mánuði síðan hafði WBA samband við Guðjón og bað hann um að dæma bardagann í Þýskalandi sem fram fer um helgina. ,,Þetta er bardagi í millivigt millum þeirra Sebastian Silverster sem er titilhafinn og andstæðingur hans verður Alexio Ferlan. Ég verð einn þriggja stigadómara í leiknum í fjöggurra dómara teymi,” sagði Guðjón en hann telur að þjóðerni sitt hafi spilað stóran þátt í að hann hafi verið valinn í verkið. ,,Ég kem frá litlu landi þar sem atvinnumannahnefaleikar eru ekki leyfðir og er því kannski hlutlausari en aðrir.” Hvaða þýðingu telur Guðjón að þetta hafi fyrir íslenska hnefaleikadómara? ,,Við eigum eftir að sjá dómurum fjölga og fyrir mig persónulega er þetta stórt skref. Við eigum góða dómara í ólympísku hnefaleikum og við megum gera ráð fyrir því að margir góðir hlutir frá Íslands hálfu eigi eftir að gerast í boxinu á næstunni,” sagði Guðjón, fyrsti Íslendingurinn sem klæðist dómarabúningi fyrir WBA.

 

Spurning hvort Guðjón fái fleiri verkefni ef hann tekur með sér svið eða súrsaða hrútspunga til Þýskalands.

 

[email protected]

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024