Tímabilið búið hjá Snorra - Maciej frá næstu mánuði
Áfall fyrir Njarðvíkinga
Njarðvíkingar fengu slæmar fregnir í dag en ljóst er að liðið mun leika án miðherjans unga Snorra Hrafnkelssonar það sem eftir lifir leiktíðar. Snorri sleit fremra krossband í hægra hné á dögunum og mun hann ekki koma meira við sögu á tímabilinu.
Þá er Maciej Baginski með einkirningasótt og þarf að hvíla næstu tvo mánuði hið minnsta en það skýrist á næstunni hvort það gætu jafnvel orðið 3 eða 4 mánuðir, þetta staðfesti þjálfari Njarðvíkinga Einar Árni Jóhannsson í samtali við Karfan.is í dag.
„Við reiknum ekkert með Snorra fyrr en næsta haust og það liggur fyrir að Maciej þarf að hvíla næstu tvo til þrjá mánuði. Þetta er gríðarlegt áfall fyrir okkur enda eru þetta lykilmenn í liðinu og báðum var þeim ætlað stórt hlutverk þennan veturinn. Ljósið í myrkrinu er þó það að í kvöld verður Ólafur Helgi Jónsson í búning en hann sleit aftara krossband þann 10. apríl síðastliðinn,“ sagði Einar Árni.
„Þetta er sárt fyrir þessa ungu menn sem hafa lagt mikið á sig og æft gríðarlega vel í sumar og haust. Við tökum þessu eins og hverju öðru hundsbiti og það kemur þá í hlut annarra leikmanna að stíga upp, eldri og reyndari menn verða að bæta við sig snúning í ljósi þessara frétta.“