Tilþrif í torfærunni (Myndasafn)
Torfærukempan Gunnar Gunnarsson á Trúðnum lenti í öðru sæti á Heimsbikarmótinu sem kláraðist um helgina. Hann var í öðru sæti á keppninni í Stapafelli á Reykjanesi en náði toppsætinu á Hellu. Gunnar hlaut einnig tilþrifaverðlaun fyrir frammistöðu sína þar.
Keppnin var í uppnámi allt fram á síðustu stundu þar sem lengi vel var útlit fyrir að ekki næðist að losa bíla erlendu keppendanna út úr tolli í tæka tíð.
Tollayfirvöld settu óheyrilegar kröfur um tryggingarfjárhæð, 25 milljónir króna, en með hjálp góðra manna á réttum stöðum var hægt að leysa málið. Keppnirnar fóru fram eftir rest og var almenn ánægja með framkvæmd þeirra.
Gunnar var þó ekki alveg sáttur við annað sætið í Heimsbikarnum þar sem hann á góðu að venjast, enda margfaldur Íslandsmeistari og Akstursíþróttamaður ársins í fyrra. „Ég hefði getað tekið þetta en það munaði bara einu stigi í lokin.“
Hann er sem stendur í efsta sæti Íslandsmótsins í götubílaflokki og í öðru sæti í heildarkeppninni þegar tvö mót eru eftir af tímabilinu.
Ljósmyndari Víkurfrétta var að sjálfsögðu á staðnum og hafa bestu myndirnar verið settar í myndasafn sem hér má sjá.
VF-myndir/Héðinn Eiríksson