Tilbúinn í stærra hlutverk

- Maciej er hinn svissneski vasahnífur Njarðvíkinga

Maciej Baginski er að eiga sitt besta tímabil á ferlinum. Þrátt fyrir mikla dýpt í Njarðvíkurliði sem trónir á toppi Domino’s-deildar karla í körfubolta, þá hefur þessi 23 pólski strákur tekið að sér leiðtogahlutverk í liðinu og er að blómstra.  „Ég er að byrja ágætlega en á mikið inni ennþá. Það er bara nóvember og við erum allir að læra inn á hvern annan,“ segir þessi hógværi leikmaður sem er þekktur fyrir mikið jafnaðargeð. Nú er að hefjast áttunda tímabil Maciej í efstu deild, sem er ótrúlegt miðað við að hann hefur verið að æfa körfubolta í þrettán ár, en hann byrjaði tíu ára gamall.

Á dögunum hélt Maciej tölu og miðlaði af sinni reynslu á viðburði UMFÍ þar sem fjallað var um börn af erlendum uppruna í íþróttum. Foreldar hans fluttu til Íslands þegar hann var fimm ára, en í gegnum hans íþróttaiðkun náðu þau betur að tengjast samfélaginu á Íslandi.
„Það voru kannski smá fordómar þarna þegar ég var að byrja fyrst en maður eignaðist fljótt vini. Það skipti engu máli, þannig séð, að ég væri pólskur. Það var auðveldara að passa inn í þar sem ég kunni tungumálið,“ segir Maciej en foreldrar hans voru duglegir að mæta á alla leiki. Honum vegnaði vel og fékk fjölda tækifæra vegna körfuboltans. „Þetta gerði bara svo mikið fyrir mig. Allar þessar landsliðsferðir og allt fólkið sem maður kynnist. Svo fyrir foreldrana, þetta getur hjálpað þeim að komast inn í samfélagið.“
Á dögunum var 100 ára sjálfstæðisdagur Póllands haldinn hátíðlegur í Reykjanesbæ þar sem stórt samfélag Pólverja hefur hreiðrað um sig. Maciej segir að hann hafi nú ekki haldið sérstaklega upp á daginn en foreldar hans fóru til Póllands í tilefni hans. „Ég er dálítið þarna inn á milli. Ég held alveg í pólsku ræturnar og tala tungumálið en er uppalinn sem Íslendingur, þannig séð.“

Þroskaðist í Þorlákshöfn

Eftir að hafa beðið eftir stærra hlutverki í Njarðvík ákvað Maciej að reyna fyrir sér á öðrum vígstöðum. Hann fór á Njarðvíkurnýlendur í Þorlákshöfn árið 2017 og spilaði undir handleiðslu Einars Árna Jóhannssonar, Njarðvíkings, sem nú er einmitt kominn aftur í Ljónagryfjuna.

„Það var minni pressa í Þorlákshöfn og maður gat leyft sér að gera fleiri mistök, þrátt fyrir að þar hafi verið mjög gott lið. Það sem maður heyrir úr stúkunni í Njarðvík hins vegar er titill eða ekkert. Við höfum reyndar ekkert verið nálægt því undanfarin ár. Mér fannst ákveðinn léttir að prófa nýtt umhverfi.“
Maciej segist hafa þroskast við dvölina á Suðurströndinni og horfir öðrum augum á körfuboltann og deildina sjálfa. Einar þjálfari tekur undir það: „Ég held að hann hafi sannað ýmislegt fyrir mörgum. Hann var bráðþroska og stór miðað við aldur. Þegar aðrir náðu honum í stærð hafði hann bætt sinn leik,“ en Maciej lék í öllum stöðum í æsku þrátt fyrir að vera jafnan stærstur og sterkastur. „Hans helsti styrkleiki er fjölhæfnin. Hann getur dekkað stöður eitt til fjögur á vellinum og er hörkuvarnarmaður. Hugsunin var fyrir tímabil að hans hlutverk myndi stækka og hann hefur axlað þá ábyrgð,“ segir þjálfarinn.

Tók nánast tvö ár að jafna sig á veikindum

Þegar Maciej var rétt búinn að stimpla sig inn í meistaraflokk kom mikið bakslag sem fór ekki hátt á sínum tíma. Hann veiktist af einkirningasótt, var frá í um fjóra mánuði og missti mikinn vöðvamassa og þrótt. „Það var stærsta bakslagið á ferlinum og það tók alveg næstum tvö ár að jafna mig á því.“ Þá sagðist Maciej ætla að koma öflugri tilbaka og hann hefur sannarlega staðið við þau orð. „Maður verður vonandi bara betri með árunum,“ segir Maciej sem hefur unnið talsvert í því að létta sig undanfarin misseri. Hann segist kvikari fyrir vikið en hafi þó ekki misst fyrri styrk. „Mér fannst ég vera aðeins of þungur síðustu tvö tímabil en líður mun betur núna.“

Þó vissulega sé ekki langt liðið af tímabili þá tala tölurnar sínu máli. Af öllum Njarðvíkingum er Maciej að sækja flestar villur á andstæðinga, en það eru aðeins fimm leikmenn í deildinni sem fiska fleiri villur en hann. Hann leiðir einnig liðið í þriggja stiga nýtingu. Hann er að skora tæp sextán stig í leik, en aðeins fjórir íslenskir leikmenn eru ofar þar á blaði í deildinni. Hann er með 38% þriggja stiga nýtingu, 44% í teignum og 82% af vítalínunni.

Ellefu af fjórtán í æfinghóp eru heimamenn

Það er mikill heimabragur á Njarðvíkingum. Allir leikmenn liðsins utan þeirra erlendu eru uppaldir og grænir í gegn. Heimamenn tala meira að segja um að Jeb Ivey sé Njarðvíkingur í húð og hár. Maciej telur að það vinni með þeim að mikið sé um heimamenn í liðinu, fólki mæti betur í stúkuna og ákveðin stemmning myndast. Njarðvíkingar eru á toppnum ásamt Keflvíkingum og Tindstólsmönnum. Liðið virðist þó eiga smá inni en oft eru þeir lengi í gang.

„Fyrsti góði fyrri hálfleikur okkar kom á móti KR, annars höfum við verið slappir í fyrri hálfleik. Þetta snýst allt um vörnina okkar. Þar höfum við verið seinir í gang og verðum fyrir vikið pirraðir í sókninni. Þegar við lögum það þá smellur þetta hjá okkur og við spilum góða, heila leiki.“ Einn slíkur leikur kom einmitt gegn Grindavík í Röstinni í síðustu viku þar sem Njarðvíkingar unnu frekar þægilegan sigur. Sterkir Stjörnumenn koma í heimsókn á föstudag. Kannski má búast við því að rulla Maciej minnki við komu Elvars Más Friðrikssonar en hann mun koma til með að styrkja liðið mikið. „Þegar svona stórt púsl kemur inn í myndina þá veit maður að einhverjar breytingar verða, en ég held að Einar Árni sé fullfær um að finna út úr því,“ segir Maciej sem hefur verið tilbúinn í stærra hlutverk síðustu tvö árin að eigin sögn.

„Ég hef alltaf verið að öskra menn áfram og leitt þannig en nú er ég kannski einn af aðalskorurum liðsins. Það er nýrra hlutverk fyrir mér. Þetta er það sem mig hefur langað að gera og ég þarf að halda áfram að sýna að ég geti þetta, þá er ég sáttur.“