Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Fimmtudagur 18. maí 2000 kl. 16:45

Þurfum ógnandi heimavöll!

Fyrstu umferð Landssíma-deildar karla í knattspyrnu lýkur í kvöld með fjórum leikjum og leika þá Kefl-víkingar sinn fyrsta leik í deildinni í sumar, en þeir taka á móti Breiðabliki á Keflavíkurvelli og hefst leikurinn kl 20:00. Næsti leikur liðsins verður svo strax eftir þrjá daga, en þá mæta þeir Íslands- og bikarmeisturum KR á útivelli. Keflvíkingum er ekki spáð sérlega góðu gengi í sumar skv. þjálfurum og fyrirliðum í deildinni, en þar eru þeir settir í sjöunda sæti. Páll Guðlaugs-son, þjálfari Keflavíkurliðsins, lætur slíkar spár ekki hrella sig og hefur mikla trú á sínum mönnum. „Við erum alls ekki með síðri hóp en þau lið sem spáð er betra gengi en okkur. Við höfum verið að leika mjög jafna og góða leiki á undir-búningstímanum og ekki dottið niður á marga slaka leiki. Spár eru oft meiri draumur en veruleiki og sem dæmi hefur KR verið án margra lykilmanna allt undirbúnings-tímabilið og hlýtur það að hafa áhrif á þá. Framarar hafa heldur ekki verið að sýna neitt af viti í vorleikjunum og eina breytingin sem verður hjá þeim fyrir fyrstu leikina er sú að Hilmar Björnsson kemur inn í liðið, en ég tel að það eigi ekki að skipta sköpum hvað leik liðsins varðar. Þessum liðum er þó spáð 1. og 4. sæti. Þegar menn eru að spá í úrslit sumarsins tel ég að þeir eigi að líta á það sem liðin hafa verið að gera í undirbúningsleikjum, en ekki að hygla sömu liðunum ár eftir ár“, segir Páll. „Það sem ég óttast mest við sumarið er að við verðum sjálfir okkar verstu mótherjar, en það gerist ef við erum ekki rétt stemmdir. Á síðasta ári var liðið að fá á sig of mörg mörk, en með tilkomu Gunnleifs markvarðar tel ég að þeim eigi eftir að fækka í sumar, enda sterk vörn undir hans stjórn fyrir framan hann.“ Páll telur heimavöll Keflavíkurliðsins ekki hafa verið nægilega sterkan á síðasta tímabili, en það sé gríðarlega mikilvægt fyrir leikmenn að finna fyrir stuðningi heima og árangur liðsins byggist að miklu leyti á því. „Ég vil hafa heimavöllinn okkar ógnandi fyrir mótherjana og hvet stuðningsmenn okkar til að mæta á völlinn og láta heyra í sér á jákvæðan hátt.“ Að lokum spáir Páll fyrir um sæti fyrir Keflavíkurliðið í sumar; „Við stefnum á sigur í deildinni í sumar, en okkar markmið er að bæta fyrir það sem miður fór í fyrra. Við erum með öfluga liðsheild sem er samheldin og vel stemmd fyrir komandi baráttu. Með tilkomu skotans Liam O’Sullivan, eykst samkeppnin í hópnum og menn komast á tærnar, en það er það sem okkur vantaði.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024