Þurfum að stjórna hraðanum
Ívar Ásgrímsson, þjálfari ÍS, telur það mikilvægt fyrir sitt lið að stjórna hraða leiksins gegn Grindavík en hann hefur tröllatrú á sínum stelpum sem hafa verið að leika ljómandi vel að undanförnu og m.a. nælt sér í 2 stig í Sláturhúsinu.
Hvað þarf ÍS að gera til að hampa Bikarmeistaratitlinum?
Við þurfum að spila okkar leik og ná að stjórna hraða leiksins. Við höfum verið á góðri siglingu upp á síðkastið og munum byggja á því í þessum leik. Við erum búin að vinna 5 síðustu leiki og eigum bara Grindavík eftir til að vera búin að vinna öll liðin í efstu deild í röð. Við áttum í vandræðum með leikstjórnun fyrir áramótin og vorum eina liðið sem var að spila án útlendings, en eftir að við fengum Mariu Conlon hefur verið góður stígandi í okkar leik og höfum við t.d. skorað yfir 90 stig í síðustu tveim leikjum, þaraf einum í Keflavík og sýndum þar að við ráðum vel við hraðan leik. Við höfum hæðina á Grindavík og munum örugglega reyna að nýta það á sem bestan hátt.
Bikarsaga ÍS er mun lengri en Grindavíkur, heldur þú að það skipti einhverju máli í úrslitaleiknum?
ÍS hefur tekið þátt í fleiri bikarleikjum heldur en Grindavík en þó má ekki gleyma því að Grindavík spilaði þennan leik í fyrra og það segir meira heldur en bikarleikur sem ÍS vann sælla minninga fyrir þrem árum síðan. Við erum þó með leikreyndara lið heldur en Grindavík og vonandi á það eftir að telja í þessum leik.
Hvernig er stemmningin í herbúðum ÍS um þessar mundir?
Það er mjög góð stemmning í okkar herbúðum og bíðum við spennt eftir þessum leik. Undirbúningur hefur verið mjög góður og hefði ekki verið hægt að óska sér betri undirbúning en að vera búin að vinna síðustu 5 leiki og var ég mjög sáttur með síðasta leik hjá okkur í Keflavík og tel að við séum á góðri siglingu.
Við hverju býst þú frá Grindavík í leiknum?
Það er ljóst að möguleiki Grindavíkur felst í því að ná að keyra upp hraðan og ná að skora sem flest stig úr hraðarupphlaupum. Einnig eru þær með mjög góðan erlendan leikmann sem hefur verið stór hluti af sóknarleik liðsins og ef þær þurfa að setja upp í sókn þá enda 95% sóknir liðsins á 3ja stiga skoti eða á sendingum inn á Jericu Watson.
Að lokum vil ég hvetja alla til að koma á leikinn og sjá góðan körfubolta. Síðustu 4 ár hefur kvennaleikurinn verið stórskemmtilegur og hefur verið að vinnast á síðustu mínútu eða farið í framlengingu, þannig að það má búast við jöfnum og skemmtilegum leik.
VF-myndir/ JBÓ, [email protected] - Frá leik Keflavíkur og ÍS fyrr í vetur