Þurfum að standa vörð um félagið okkar
Rúnar V. Arnarson kveður sem formaður Knattspyrnudeildar Keflavíkur
Eftir 10 ár á formannsstóli Knattspyrnudeildar Keflavíkur gengur Rúnar V. Arnarson stoltur frá borði. Á hans tíma sem formaður landaði félagið tveimur bikarmeistaratitlum í karlaflokki og kvennaliðið komst einu sinni í bikarúrslitaleikinn. Þá var Rúnar ötull í því starfi að vinna niður miklar skuldir deildarinnar og segir hann í viðtali við Víkurfréttir að knattspyrnulið í efstu deild séu dýr í rekstri en markmiðið sé að skila þeim á núllinu hvert ár, enginn skuli vera í þessum bransa til að græða, heldur ná árangri. Nú í lok janúarmánaðar verður nýr formaður knattspyrnudeildarinnar kjörinn í embætti en ekki er komið á hreint hver taki við tímafreku kefli Rúnars. Hann vandar Guðjóni Þórðarsyni ekki kveðjurnar í þessum burtfararorðum sínum en segir framtíð Knattspyrnudeildar Keflavíkur vera bjarta þar sem ekki sé skortur á ungum og efnilegum knattspyrnuiðkendum hjá Keflavík.
,,Þetta er búið að vera gríðarlega skemmtilegur tími og gefandi. Maður hefði ekki tollað í þessu í 10 ár nema hafa gaman af þessu,” sagði Rúnar en verið er að vinna í því að finna eftirmann hans. En hvernig vildi það til að Rúnar varð formaður Knattspyrnudeildar Keflavíkur? ,,Ég var í stjórn deildarinnar á sínum tíma og þá leitaði fráfarandi formaður til mín en hann hafði þá setið í um 10 ár. Ég lét tilleiðast en átti alls ekki von á því að þetta yrðu 10 ár hjá mér. Ég ætlaði mér bara að vera í þessu í nokkur ár og það var aldrei í spilunum að vera í heil 10 ár,” sagði Rúnar sem minnist sérstaklega á bikarmeistaratitlana. ,,Þessir tveir sem við unnum 2004 og 2006 á meðan ég var formaður eru klárlega það eftirminnilegasta hjá mér í þessu embætti. Að vinna titla er það sem gefur starfinu lit og borgar allt streðið og alla vinnuna til baka.”
Skörungur á velli og á formannsstól
Rúnar var þekktur skörungur á knattspyrnuvellinum þegar hann lék listir sínar með Súlunni fyrir Austan á sínum tíma en er það ekki einmitt íþróttaandinn sjálfur sem þarf til þess að reka áfram knattspyrnufélag í efstu deild?
,,Já, ég var alger snillingur í 3. deildinni,” sagði Rúnar kátur í bragði. ,,Súlan er mitt félag og þar var ég formaður Ungmennafélagsins um hríð og fékk þannig smjörþefinn af þessum störfum. Auðvitað þarf baráttuþrek og vita út á hvað fótbolti gengur þegar maður er í svona stöðu, það hjálpaði mér að hafa sjálfur verið að spila þó það hafi nú ekki verið á þessu stigi sem Keflavík er í dag,” sagði Rúnar en tími hans sem formaður hjá Keflavík var ekki einvörðungu dans á rósum.
Úr 70 milljónum á jafnslétt
,,Það er búið að ganga á ýmsu. Við stóðum á sínum tíma frammi fyrir því að skuldir deildarinnar voru gríðarlegar. Á tímabili voru þær um eða yfir 70 milljónir en á þessu máli var tekið með sameiginlegu átaki fyrirtækja og annarra öflugra aðila í kringum deildina og við náðum að þurrka út þessa miklu skuld á einum fimm árum,” sagði Rúnar óneitanlega stoltur af þessu mikla afreki. ,,Við urðum á þessum tíma að láta frá okkur sterka tekjupósta en með sameiginlegu átaki tókst að berja þessar 70 milljónir niður í núll.”
Óneitanlega viðbrigði að fara frá Súlunni fyrir Austan og koma til Keflavíkur sem haldið hefur um árabil knattspyrnuliði í deild þeirra bestu á Íslandi. ,,Ég er stoltur af því að hafa fengið að vera formaður hér í 10 ár en auðvitað voru þetta mikil viðbrigði að taka við svona stöðu. Engu að síður lít ég stoltur til baka og er ánægður með það sem við höfum áorkað.”
Tilbúinn í baktjaldavinnuna
Þó Rúnar hverfi nú frá sem formaður er hann áfram reiðubúinn til þess að inna af hendi hin ýmsu störf fyrir Keflavík og hann hefur nokkrar hugmyndir um hvað séu brýnustu verkefni knattspyrnudeildarinnar þessa stundina.
,,Við þurfum að bæta aðstöðumálin sem fyrst og hraða öllum framkvæmdum í kringum það þannig að æfinga- og keppnisaðstaða verði sambærileg við það sem gerist annars staðar. Þetta er í pípunum en tekur kannski lengri tíma en við hefðum viljað en ég er klár á því að innan fárra ára verðum við komin í fremstu röð hvað aðstöðumálin varðar. Eins þurfum við að ná upp meiri stöðugleika í liðið okkar og fá leikmenn til þess að staldra lengur við en raun ber vitni. Ég hef samt sagt það að við munum ekki standa í vegi þeirra leikmanna sem vilja komast út í atvinnumennskuna,” sagði Rúnar sem heldur áfram með umræðuna tengda framkvæmdum. ,,Það hefur verið samþykkt í bæjarstjórn að reisa búningaaðstöðu fyrir knattspyrnuvöllinn ásamt aðstöðu fyrir dómara og þetta á að vera tilbúið fyrir leiktíðina í sumar. Þá eru ýmsar aðrar framkvæmdir í gangi og þeim ber að fagna. Það eru spennandi tímar framundan, nýtt gervigras komið í Reykjaneshöllina en það var lengi baráttumál hjá okkur.”
Guðjón ekki mikill pappír í mínum augum
,,Ég ætla ekkert að setjast í helgan stein núna. Ég er tilbúinn til þess að starfa áfram með félaginu og verð áfram sami Keflvíkingurinn og styð mitt félag,” sagði Rúnar en var ekki tilbúinn til að gangast við því aðspurður hvort hann yrði þá nýjasti meðlimur PUMA sveitarinnar. ,,Það var ekkert eitt sem gerði útslagið hjá mér. Ég fann að ég var farinn að þreytast sem formaður og því kominn tími á afsögn. Ég hef oft lent í samskiptum við menn sem eru orðnir þreyttir á því sem þeir eru að gera og sjálfur fann ég að neistinn var að hverfa og því ákvað ég að láta gott heita,” sagði Rúnar um ástæður afsagnarinnar en á þessum tíu árum hefur mikið gengið á hjá Keflavík og sjaldan meira en í ár. Enn eina ferðina var það Guðjón Þórðarson sem bar á góma.
,,Ég sá ekki leikinn fræga gegn ÍA uppi á Skaga í sumar þar sem ég var erlendis í sumarfríi og því miður var ég ekki hér heima til að taka þennan slag sem varð í framhaldinu af þessum leik,” sagði Rúnar en hvað fannst honum um markið hans Bjarna Guðjónssonar? ,,Þetta var bara hræðilegt og ódrengilegt, svona gera menn ekki og vissulega var mikil kergja eftir þetta mál,” sagði Rúnar og hann segir farir Keflavíkur ekki sléttar í viðskiptum sínum við Guðjón Þórðarson.
,,Það er varla hægt að ræða þetta mál því það er svo sorglegt. Þegar maður kynnist svona ódámi eins og Guðjóni og fyrir hverju hann stendur þá er þetta bara sorglegt. Sá maður er ekki mikill pappír í mínum augum og hann hefur sýnt það bæði þegar hann réð sig til okkar og þau læti sem urðu eftir brotthvarf hans svo og í málinu uppi á Skaga í sumar.
Skagamenn eru drengir góðir og það er enginn kali milli Keflavíkur og Skagans því við höfum átt ágætt samstarf við stjórnarmenn hjá ÍA og allt í fína lagi þar en það er bara fyrst og fremst kali til Guðjón og svo Bjarna. Allt annað er löngu leyst og ég hef átt mjög gott samstarf við Gísla Gíslason formann Skagans og ber engan skugga þar á.”
Þurfum að spýta í lófana
Aðspurður um framhaldið hjá knattspyrnudeild Keflavíkur segist Rúnar vera bjartsýnn en hann rekur þó varnagla og hvetur nú alla til þess að snúa bökum saman. ,,Það eru blikur á lofti og við þurfum að spýta í lófana þar sem við erum að dragast aftur úr félögunum á Stór-Reykjavíkursvæðinu fjárhagslega og við þurfum nú virkilega að standa vörð um félagið okkar. Við þurfum einfaldlega meira frjármagn inn í deildina til að standast liðunum sporð í borginni. Ég treysti því að Keflvíkingar snúi bökum saman og þá mun ekki líða langur tími þangað til Íslandsmeistaratitillinn kemur hingað til Keflavíkur,” sagði Rúnar ákveðinn en verður áfram sami háttur og síðustu ár? Munu Keflvíkingar áfram þurfa að sjá á eftir lykilmönnum í önnur lið á meðan leiktíð stendur?
,,Ég veit ekki endilega hvort það sjái fyrir endann á þessu en þegar leikmenn vilja fara í atvinnumennsku erlendis höfum við yfirleitt gengið til samninga með þeim og oftast náð því fram sem við viljum fyrir hvern tiltekinn leikmann. Ég minni samt á að ekkert félag á Íslandi hefur selt eins marka leikmenn eða komið eins mörgum leikmönnum út í atvinnumennsku síðustu 4-5 árin og það sýnir að Keflavík er góður stökkpallur út í atvinnumennskuna og við erum stoltir og ánægðir með það,” sagði Rúnar.
Sumarið meiri vonbrigði en þegar við féllum
Rúnar segir að árlega sé veltan á knattspyrnudeildinni nálægt 100 milljónum og að mikið afrek sé að skila svona starfi á núlli hvert ár. Hann segir gríðarlegar breytingar í umhverfi knattspyrnunnar á síðustu árum hafa gert allt starf deildanna í landinu mun faglegra. ,,Það eru alltaf kröfur og með leyfiskerfinu í efstu deild sem snéri t.d. að menntun þjálfara, fjárreiðum og svo mörgu öðru í starfi deildarinnar hafa ímyndir félaganna batnað. Áður en við fengum sæti á Keflavíkurvöll þurftum við að spila Evrópuleiki okkar í Reykjavík en nú spilum við þá hér í Keflavík á okkar heimavelli,” sagði Rúnar og viðurkenndi að það að missa af Evrópusæti væri mikið tekjutap en vitanlega ætlaði liðið sér að komast í Evrópukeppnina 2009.
,,Við höfum orðið vör við það hér í Keflavík að þeir leikmenn sem við höfum haft hug á að fá til liðs við okkur hafa ekki viljað koma þar sem Keflavík hefur engan veginn verið hæft í að bjóða þeim sömu laun og önnur lið í Reykjavík. Við verðum að leysa okkar leikmannamál með öðrum hætti eins og t.d. að ná í unga og efnilega leikmenn utan af landi,” sagði Rúnar sem lítur ekki svo á að Keflavík hafi tekið skref aftur á bak í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. ,,Síðasta sumar var vissulega mikil vonbrigði og af ýmsum ástæðum sem erfitt er að henda reiður á þá fór þetta svona. Seinni hluti tímabilsins var erfiður og við misstum flugið. Ég segi fyrir mig að þetta sumar hafi verið meiri vonbrigði en sumarið 2002 þegar við féllum því væntingarnar fyrir síðustu leiktíð voru miklar.”
Rúnar kveður endanlega sem formaður Knattspyrnudeildar Keflavíkur um mánaðarmótin næstu og fagnar því að sólarhringurinn hans verði þá að nýju orðinn 24 stunda langur. ,,Það verður alveg nýtt að hafa nógan tíma til að gera eitthvað því síðustu 10 ár hefur yfirleitt vantað nokkra klukkutíma í sólarhringinn hjá mér,” sagði Rúnar sem nýverið var sæmdur gullmerki KSÍ. ,,Það er alltaf gaman að fá klapp á bakið fyrir að standa sig vel og það tel ég mig hafa gert og ég get gengið með góða samvisku frá borði þó alltaf megi vissulega gera betur. Ég er þakklátur fyrir að fólk skuli virða þau störf sem ég hef unnið fyrir deildina á síðustu 10 árum og þakka kærlega mínum samstarfsmönnum- og konum í gegnum tíðina. Keflavík á marga efnilega leikmenn og við höfum verið að byggja upp yngri flokka starfið og á næstu árum munu efnilegir knattspyrnumenn skila sér upp í meistaraflokkanna.”
VF-Myndir/ Ellert Grétarsson, [email protected]
Texti: Jón Björn Ólafsson, [email protected]