Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Íþróttir

Þurfum að halda okkur á jörðinni
Boltinn í netinu eftir frábært skot Lasse Rise. VF-myndir/pket.
Föstudagur 11. ágúst 2017 kl. 22:07

Þurfum að halda okkur á jörðinni

- segir Guðlaugur Baldursson, þjálfari Keflavíkur. Frábært mark Lasse Rise tryggði sigur

„Þetta var mikilvægur sigur í harðri toppbaráttu. Staða okkar er óneitanlega orðin enn betri en við þurfum samt að halda okkur á jörðinni,“ sagði Guðlaugur Baldursson, þjálfari Keflvíkinga eftir sigurleik gegn Þrótti í toppslag Inkasso-deildarinnar í knattspyrnu á Nettó-vellinum í Keflavík í kvöld. Lasse Rise skoraði sigurmark Keflvíkinga eftir baráttu inn í markteig fékk hann boltann á flugi og hamraði honum í netið.

„Við lékum vel og vorum jú betri aðilinn í leiknum þó það hafi ekki verið mörg dauðafæri. Mér fannst við vera ákveðnari og duglegri í alla bolta. Það er gríðarlega mikilvægt að vera með svona baráttuanda. En þetta var góður og mikilvægur sigur en nú er næsta verkefni næsti leikur sem er á móti Haukum. Við þurfum að halda áfram. Fögnum aðeins á eftir en förum svo að hugsa um næsta leik,“ sagði Guðlaugur.

His unga lið Keflvíkur gefur ekkert eftir í toppbaráttunni og sýndi það í þessum leik að liðið ætlar sér alla leið. Bítlabæjarliðið var mun meira með boltann og Þróttarar brutu ansi oft á Keflvíkingum. Þeir áttu hins vegar besta færið fyrir utan mark Keflavíkur en þá fór boltinn í stöng eftir vandræðagang hjá Sindra markverði og vörninni sem annars stóðu sig mjög vel með fyrirliðann Marc Mcausland í broddi fylkingar, einn besta mann leiksins. Keflvíkingar sluppu þar með skrekkinn en það var í raun eina hættulega tækifæri gestanna. Flestir Keflvíkinga áttu góðan leik. Frans Elvarsson var sívinnnandi og reyndar allt liðið. Leikgleðin skein af Keflvíkingum og það hefur sýnt sig í síðustu leikjum. Það er eitthvað í liðinu sem var ekki í því síðustu tvö árin. Einhver neisti.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Keflavík er með fjögurra stiga forskot á Þrótt og Fylki sem eru í 2.-3. sæti en Fylkismenn töpuðu fyrir Leikni frekar óvænt, öðrum leiknum í röð. Þegar sex leikir eru eftir eru Keflvíkingar ansi líklegir en það má þó ekkert útaf bregða til þess að missa ekki flugið. Guðlaugur þjálfari segir að það sé verkefni sem sé alltaf í gangi. „Við erum bara að reyna að einbeita okkur að hverjum leik, ekki horfa fram í tímann eða til baka. Það er mikilvægt að ná því.“

Boltinn á leiðinni í netið.

Frans Elvarsson átti góðan leik.

Fyrirliðinn Mcaustland eins og klettur í vörn Keflavíkur.

Hólmar Örn Rúnarsson í baráttunni með boltann.

Guðlaugur Keflavíkurþjálfari þakkar þjálfara Þróttar eftir leikinn.