Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þung upplifun sem endaði á því að ég gat ekki mætt í vinnu lengur
Hjónin Sólveig og Gunnlaugur.
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
föstudaginn 27. september 2019 kl. 07:10

Þung upplifun sem endaði á því að ég gat ekki mætt í vinnu lengur

Hjón vinna upp heilsuna með því að mæta í ræktina í Sporthúsinu. Finna mikla beytingu til batnaðar

„Ég er í ræktinni að byggja mig upp eftir að ég lenti í kulnun. Það lýsti sér þannig að ég svaf ekki heilu næturnar, var alltaf í vinnunni, með símann á eyrunum sem er mannskemmandi og átti mér heldur ekkert félagslíf. Þegar maður á sjálfur fyrirtæki þá stjórnar síminn manni,“ segir Gunnlaugur Hólm Torfason en hann var illa haldinn, farin að drekka og kominn með sjálfsvígshugsanir. Hann og kona hans, Sólveig Guðmundsdóttir æfa saman en hún segir að hreyfingin og styrkingin í ræktinni hjálpi henni mikið í gigtinni.

Þung upplifun

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þetta var mjög þung upplifun sem endaði á því að ég gat ekki mætt í vinnu lengur. Það hrundi allt. Ég þurfti að fara á bráðadeild vegna því ég var með allt of háan blóðþrýsting, þjáðist einnig af ofþreytu, ofsakvíða og þunglyndi. Allur pakkinn. Ég gekk svo gjörsamlega á vegg, ótrúlegt að upplifa þetta. Konan mín stóð með mér og studdi mig. Hún hringdi í heimilislækni sem ávísaði mér strax á VIRK sem gátu tekið við mér í maí en þetta var um miðjan febrúar sem ég gat ekki meir. Ég fékk vottorð hjá lækni um að ég væri óvinnufær og ég ákvað strax að skammast mín ekki fyrir þetta og talaði opinskátt um ástand mitt. Ég fór til sálfræðings sem er enn að hjálpa mér og á námskeið í Heilsuborg en nú er ég byrjaður hjá VIRK sem er einnig frábært. Nú er ég í líkamlegri og andlegri uppbyggingu og finn hvernig líðan mín stefnir hratt upp á við. Ég er kominn í jóga og hugleiðslu. Mér finnst æðislegt að fara í hugleiðslu en það geri ég tvisvar á dag í tuttugu mínútur. Hugleiðslan er að breyta hausnum á mér og koma mér betur inn í nútíðina. Hausinn á mér var annaðhvort í fortíð eða framtíð, aldrei hér og nú sem skapar spennu. Hugleiðslan er að fækka kvíðaköstunum einnig, svo þetta er allt upp á við. Ég er ákveðinn í að ná mér aftur og verða fullfrískur. Um leið og ég kem í ræktina þá finn ég strax þessa vellíðan og veit að þegar ég fer út héðan þá verð ég í enn betri líðan. Nú passa ég upp á sjálfan mig. Þér getur ekki þótt vænt um aðra ef þér þykir ekki vænt um sjálfan þig. Við hjónin erum saman í ræktinni og það er mjög gaman.“

Besta fyrir fólk með gigt

„Ég er að byrja á þriðju vikunni hér. Mér leið illa þegar ég byrjaði en hafði prófað áður að vera í ræktinni og vissi að þetta myndi gera mér gott. Ég er með slitgigt og vefjagigt, liðagigt á báðum hnjám og hreyfingin slær á verkina. Ég hefði aldrei trúað því hvað þetta hjálpar mér, ég finn strax mikinn mun,“segir Sólveig Guðmundsdóttir en eiginmaður hennar, Gunnlaugur Hólm Tofason er að byggja sig upp í ræktinni eftir kulnun í starfi.

„Fólk með gigt heldur að það geti ekki hreyft sig í ræktinni en þetta er það besta sem þú gerir. Fólk verður bara að passa að fara á eigin hraða og byrja rólega. Ég er öll að eflast bara eftir þessar þrjár vikur og léttast í leiðinni en ég er búin að missa fjögur kíló síðan ég byrjaði fyrir þremur vikum. Fyrst byrja vöðvarnir að styrkjast og þá fer maður að brenna. Ég er einnig að taka mataræðið í gegn, minnka sykur og hef tekið út hveiti. Hreyfingin hjálpar mér og ósjálfrátt líður mér betur. Ég sef einnig betur og andlega hliðin fer upp. Ég fer í ræktina með manninum mínum en hann var byrjaður þegar ég ákvað að byrja. Áður hafði ég verið ein að æfa og þá var ég einbeitt í að fókusa á sjálfa mig. Það er engin að gagnrýna mann hérna eða pæla í manni. Hingað kem ég til að hugsa um sjálfa mig. Við æfum fimm daga vikunnar og förum svo út að ganga um helgar þegar veður leyfir. Krakkarnir okkar eru farnir að heiman og við höfum meiri tíma fyrir okkur. Þetta er svo mikils virði,“ segir Sólveig.

Heilsu- og forvarnarvika á Suðurnesjum hefst 30. september og stendur til 6. október. Nánar um dagskránna í Víkurfréttum.