Þróttur Vogum sækir um að halda Landsmót UMFÍ 50+ árið 2024
Ungmennafélagið Þróttur í Vogum, sótti árið 2020, um að fá að halda Landsmót 50+ árið 2022. Sökum heimsfaraldursins þá var umsóknarferlinu lokað en stjórn UMFÞ ákvað á fundi sínum í júní á síðasta ári, að endurnýja umsóknina fyrir mótið sem verður haldið árið 2024.
Landsmót UMFÍ 50+ er mót sem haldið er árlega fyrir fólk yfir miðjum aldri. Eftir að COVID hömlur hurfu í fyrra, þá var mótið haldið í Borgarnesi og í sumar verður það haldið í Stykkishólmi. Vogabúar ætla sér að halda mótið að ári en forsvarsmenn UMFÞ líta á mótið sem frábært tækifæri til að vekja athygli á lýðheilsu og möguleikunum til íþróttaiðkunnar í sveitarfélaginu.
Mótið er opið öllum þátttakendum sem verða 50 ára á árinu og þeim sem eldri eru. Einstaka sinnum er opið í einstaka greinar fyrir þátttakendur á öllum aldri en ekki er gerð krafa um að þátttakendur séu skráðir í ungmenna- eða íþróttafélag.