Þróttur Vogum og ÍR mætast í kvöld
Í kvöld tekur Þróttur Vogum á móti ÍR í 16 liða úrslitum SS Bikarkeppni karla í handknattleik. Leikurinn hefst kl. 21:00 í Íþróttahúsinu í Garði og mun enginn annar en handboltahetjan Sigurður Sveinsson stýra liði Þróttar í leiknum. Mikil og góð umgjörð er í kringum leikinn og því tilvalið að gera sér ferð út í Garð í kvöld.
Þróttarar komust í 16 liða úrslit með því að leggja lið ÍBV 2 að velli 21-20 í leik þar sem lokamínúturnar voru vægast sagt rafmagnaðar.
Lið Þróttar Vogum er samansett af strákum sem æft hafa fótbolta og körfubolta en hafa alla tíð fylgst vel með handboltanum og vildu endilega prófa sig á því sviði. Nú eru þeir komnir í 16 liða úrslit eins og áður segir og mæta ÍR sem er eitt sterkasta lið landsins í dag. Júlíus Jónasson stýrir ÍR og því verður hart barist í kvöld þegar Júlíus og Sigurður mætast í Garðinum.
VF-mynd/ Júlíus Jónasson í leik með íslenska landsliðinu þegar hann lék með liðinu.