Þróttur tapar eftir framlengingu
Þróttur úr Vogum tapaði í dag fyrir B-liði Ármanns/Þróttar í 2. deild karla í körfuknattleik 106-109 eftir framlengdan leik. Gestirnir leiddu í hálfleik en heimamenn komu sterkir inn í þeim seinni og voru dyggilega hvattir af stuðningsmönnum sínum. Eftir frábæran kafla í 3. leikhluta komust Þróttarar V. yfir og héldu forystunni þar til skammt var eftir af leiknum þegar liðin skiptust á að leiða, en þegar venjulegum leiktíma lauk var staðan jöfn 95-95. Í framlengingunni komust leikmenn Ármanns/Þróttar yfir og gáfu ekki eftir og mörðu sigur eftir æsispennandi leik.
Þessi leiktíð er sú fyrsta sem Þróttur úr Vogum starfrækir körfuknattleiksdeild og er ekki annað að sjá en að þeir hafi fullan metnað til að feta í fótspor nágranna sinna frá Keflavík, Njarðvík og Grindavík. Smári Baldursson, formaður körfuknattleiksdeildarinnar segir mikinn áhuga vera fyrir körfunni í Vogum og mikil vakning eigi sér stað hjá krökkunum, sem flykkjast á æfingar.
Í dag er einnig haldið upp á 10 ára afmæli Íþróttamiðstöðvarinnar í Vogum og er boðið upp á alls konar uppákomur í tilefni þess. Meðal annars er frítt í sund auk þess sem Solla Stirða úr Latabæ kíkir í heimsókn.