Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þróttur og Njarðvík efst í annarri deild karla
Markvörður Leiknis þurfti að sækja boltann níu sinnum í netið. VF-mynd: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 4. júlí 2021 kl. 21:19

Þróttur og Njarðvík efst í annarri deild karla

Grindavík með jafntefli í Lengjudeild kvenna

Njarðvíkingar sökktu Leikni Fáskrúðsfirði með níu mörkum gegn einu í dag á meðan Þróttur hafði eins marks sigur á Magna á Grenivík. Á sama tíma tapaði topplið KV óvænt fyrir Völsungi á Húsavík og því eru Þróttur og Njarðvík komin í tvö efstu sætin í 2. deild karla í knattspyrnu. Reynismenn komust í tvígang yfir gegn Fjarðabyggð á Eskjuvelli í dag en Fjarðabyggð jafnaði í bæði skiptin og 2:2 jafntefli niðurstaðan.

Njarðvík - Leiknir F. (9:1)

Njarðvíkingar þjörmuðu að Leiknismönnum á heimavelli sínum í dag og komust í 3:0 með hrinu marka í upphafi leiks. Kenneth Hogg kom sínum mönnum yfir á 4. mínútu, Einar Orri Einarsson tvöfaldaði forystuna tveimur mínútum síðar (6') og Hogg var aftur á ferðinni á 8. mínútu. Sannkölluð draumabyrjun hjá Njarðvík sem hefur verið á fullri ferð undanfarið, hafa unnið fjóra af síðustu fimm leikjum og ekki enn tapað leik í deildinni.

Njarðvíkingar skoruðu tvö til viðbótar fyrir hálfleik, fyrst Bergþór Smári Ingason (23') og svo Magnús Þórðarson (40') – staðan 5:0 í hálfleik.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Einhver ferðaþreyta virtist þjaka gestina og spurning hvort vörn þeirra hafi gleymst fyrir austan en seinni hálfleikur var varla farinn af stað þegar Magnús Þórðarson hafði skorað annað mark sitt í leiknum (46'). Gestirnir náðu einu marki á 52. mínútu en Magnús fullkomnaði þrennuna á 66. mínútu. Tómas Óskarsson komst á blað á 73. mínútu og þegar komið var í uppbótartíma náði Kenneth Hogg annarri þrennunni í leiknum þegar hann ýtti boltanum yfir marklínuna eftir hornspyrnu Njarðvíkur (90'+2).

Ótrúlegur yfirburðasigur Njarðvíkinga sem sitja nú í öðru sæti með tuttugu stig.

Myndasyrpa Jóhanns Páls Kristbjörnssonar, ljósmyndara Víkurfrétta, úr leiknum er neðst á síðunni.


Rubén Lozano Ibencas skoraði sigurmark Þróttar í dag. Mynd úr safni Víkurfrétta

Magni - Þróttur (0:1)

Þróttarar léku gegn Magna á útivelli í dag. Spánverjinn Rubén Lozano Ibencas kom Þrótti yfir skömmu fyrir leikhlé (40') en Þróttarar misstu mann af velli á 78. mínútu þegar Marc David Wilson fékk að líta sitt annað gula spjald í leiknum. Þróttur treysti vörnina og því dugði mark Ibencas til sigurs. Með sigrinum komst Þróttur í efsta sæti deildarinnar með 21 stig, einu stigi fleiri en Njarðvík.


Fjarðabyggð - Reynir (2:2)

Reynismenn héldu austur í land og léku gegn Fjarðabyggð á Eskifirði. Eftir markalausan fyrri hálfleik kom gamla brýnið Magnús Sverrir Þorsteinsson Reynismönnum yfir (60') enn Fjarðabyggð svara í sömu mynt aðeins tveimur mínútum síðar.

Hörður Sveinsson, ekki síður gamalt brýni, kom Reyni aftur yfir á 73. mínútu en Edon Osmani varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 90. mínútu og liðin skildu því jöfn.

Reynir situr nú í sjötta sæti deildarinnar eftir að hafa verið á toppnum fyrir ekki svo löngu síðan, Reynismenn hafa hins vegar ekki náð að vinna leik síðan 10. júní þegar þeir sigruðu Þrótt 1:3 í Vogunum.

Fögnum Reynismanna hefur fækkað í síðustu leikjum eftir ótrúlega byrjun á Íslandsmótinu. Mynd úr safni Víkurfrétta

Lengjudeild kvenna:

HK - Grindavík (1:1)

Grindavík lék gegn HK á útivelli síðasta föstudag í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu. Grindvíkingar komust yfir með marki Christabel Oduro snemma í síðari hálfleik (49') en HK jafnaði á þeirri 73.

Eftir átta umferðir á Grindvík enn eftir að vinna leik, hafa gert fjögur jafntefli og tapað fjórum. Þær sitja í neðsta sæti deildarinnar með fjögur stig en það er ekki langt í næstu lið, Augnablik með fimm stig og HK átta.

Njarðvík - Leiknir F. (9:1) | 2. deild karla 4. júlí 2021