Þróttur og Njarðvík efst í annarri deild karla
Grindavík með jafntefli í Lengjudeild kvenna
Njarðvíkingar sökktu Leikni Fáskrúðsfirði með níu mörkum gegn einu í dag á meðan Þróttur hafði eins marks sigur á Magna á Grenivík. Á sama tíma tapaði topplið KV óvænt fyrir Völsungi á Húsavík og því eru Þróttur og Njarðvík komin í tvö efstu sætin í 2. deild karla í knattspyrnu. Reynismenn komust í tvígang yfir gegn Fjarðabyggð á Eskjuvelli í dag en Fjarðabyggð jafnaði í bæði skiptin og 2:2 jafntefli niðurstaðan.
Njarðvík - Leiknir F. (9:1)
Njarðvíkingar þjörmuðu að Leiknismönnum á heimavelli sínum í dag og komust í 3:0 með hrinu marka í upphafi leiks. Kenneth Hogg kom sínum mönnum yfir á 4. mínútu, Einar Orri Einarsson tvöfaldaði forystuna tveimur mínútum síðar (6') og Hogg var aftur á ferðinni á 8. mínútu. Sannkölluð draumabyrjun hjá Njarðvík sem hefur verið á fullri ferð undanfarið, hafa unnið fjóra af síðustu fimm leikjum og ekki enn tapað leik í deildinni.
Njarðvíkingar skoruðu tvö til viðbótar fyrir hálfleik, fyrst Bergþór Smári Ingason (23') og svo Magnús Þórðarson (40') – staðan 5:0 í hálfleik.
Einhver ferðaþreyta virtist þjaka gestina og spurning hvort vörn þeirra hafi gleymst fyrir austan en seinni hálfleikur var varla farinn af stað þegar Magnús Þórðarson hafði skorað annað mark sitt í leiknum (46'). Gestirnir náðu einu marki á 52. mínútu en Magnús fullkomnaði þrennuna á 66. mínútu. Tómas Óskarsson komst á blað á 73. mínútu og þegar komið var í uppbótartíma náði Kenneth Hogg annarri þrennunni í leiknum þegar hann ýtti boltanum yfir marklínuna eftir hornspyrnu Njarðvíkur (90'+2).
Ótrúlegur yfirburðasigur Njarðvíkinga sem sitja nú í öðru sæti með tuttugu stig.
Myndasyrpa Jóhanns Páls Kristbjörnssonar, ljósmyndara Víkurfrétta, úr leiknum er neðst á síðunni.
Magni - Þróttur (0:1)
Þróttarar léku gegn Magna á útivelli í dag. Spánverjinn Rubén Lozano Ibencas kom Þrótti yfir skömmu fyrir leikhlé (40') en Þróttarar misstu mann af velli á 78. mínútu þegar Marc David Wilson fékk að líta sitt annað gula spjald í leiknum. Þróttur treysti vörnina og því dugði mark Ibencas til sigurs. Með sigrinum komst Þróttur í efsta sæti deildarinnar með 21 stig, einu stigi fleiri en Njarðvík.
Fjarðabyggð - Reynir (2:2)
Reynismenn héldu austur í land og léku gegn Fjarðabyggð á Eskifirði. Eftir markalausan fyrri hálfleik kom gamla brýnið Magnús Sverrir Þorsteinsson Reynismönnum yfir (60') enn Fjarðabyggð svara í sömu mynt aðeins tveimur mínútum síðar.
Hörður Sveinsson, ekki síður gamalt brýni, kom Reyni aftur yfir á 73. mínútu en Edon Osmani varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 90. mínútu og liðin skildu því jöfn.
Reynir situr nú í sjötta sæti deildarinnar eftir að hafa verið á toppnum fyrir ekki svo löngu síðan, Reynismenn hafa hins vegar ekki náð að vinna leik síðan 10. júní þegar þeir sigruðu Þrótt 1:3 í Vogunum.
Lengjudeild kvenna:
HK - Grindavík (1:1)
Grindavík lék gegn HK á útivelli síðasta föstudag í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu. Grindvíkingar komust yfir með marki Christabel Oduro snemma í síðari hálfleik (49') en HK jafnaði á þeirri 73.
Eftir átta umferðir á Grindvík enn eftir að vinna leik, hafa gert fjögur jafntefli og tapað fjórum. Þær sitja í neðsta sæti deildarinnar með fjögur stig en það er ekki langt í næstu lið, Augnablik með fimm stig og HK átta.