Þróttarar semja við fyrrverandi leikmann ensku úrvalsdeildarinnar
Marc Wilson, fyrrverandi landsliðsmaður Írlands og leikmaður í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu um árabil, er genginn til liðs við 2. deildarlið Þróttar í Vogum, leikur með því í sumar og verður í þjálfarateyminu.
Wilson er 33 ára gamall og lék áður með Portsmouth, Stoke, Bournemouth og WBA í úrvalsdeildinni frá 2008 til 2017, alls 181 leik, og þá lék hann með Yeovil, Luton, Sunderland og Bolton. Hann var síðast leikmaður Bolton í B-deildinni tímabilið 2018–2019. Wilson lék 25 A-landsleiki fyrir Írland á árunum 2011 til 2016.
Wilson kemur vafalaust til með að styrkja Þróttara í baráttu um sæti í Lengjudeildinni, hann var samherji Hermanns Hreiðarssonar, þjálfara Þróttar í Vogum, á sínum tíma og samhliða því að leika með Þrótti verður hann með þeim Hermanni og Andy Pew í þjálfarateymi liðsins en Wilson er að afla sér þjálfararéttinda.