Þróttarar komnir á sigurbraut eftir dramatískan útisigur
Þróttur Vogum vann dramatískan 4:3-útisigur á Kára í fyrsta leik 12. umferðar 2. deildar karla í fótbolta í gærkvöldi. Sigurmarkið kom í uppbótartíma.
Miroslav Babic skoraði eina mark fyrri hálfleiks fyrir Þrótt en leikurinn lifnaði við í seinni hálfleik.
Hlynur Sævar Jónsson jafnaði fyrir Kára á 53. mínútu en þremur mínútum síðar kom Guðmundur Marteinn Hannesson Þrótti aftur yfir. Ingvar Ástbjörn Ingvarsson kom Þrótti í 3:1 og bjuggust þá flestir við útisigri.
Hlynur Sævar skoraði sitt annað mark á 64. mínútu og Andri Júlíusson jafnaði í 3:3 með marki úr víti á 88. mínútu. Þróttarar komu til baka og Alexander Helgason skoraði sigurmark á fjórðu mínútu uppbótartímans.
Þróttur er nú í þriðja sæti með 19 stig, einu stigi minna en Selfoss og þremur stigum minna en topplið Leiknis F. Kári er í ellefta og næstneðsta sæti með ellefu stig.